Garðabær er fimmta fjölmennasta sveitarfélag landsins samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá frá 1. janúar sl. með 20.586 íbúa og hefur þar með sætaskipti við Akureyrabæ, en þann 1. desember 2023 var Garðabær sjötta fjölmennasta sveitarfélag landsins með 19.494 íbúa á meðan Akureyrabær var með 20.199 íbúa. í dag eru íbúar Akureyrarbæjar 20.393.
Þá fjölgaði íbúum í Garðabæ mest á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu frá 1. desember 2024 til 1. janúar 2025 eða um 55 talsins á meðan íbúum Reykjavíkurborgar fækkaði um 56 íbúa og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 47 íbúa, um 31 í Hafnarfirði, um 29 í Mosfellsbæ og um 7 á Seltjarnarnesi. Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á tímabilinu um 11 íbúa, í Reykjanesbæ hefur fækkað um 60 íbúa og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 5 íbúa.
íbúum fjölgar hlutfallslega mest í Garðabæ
Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Garðabæjar fjölgað hlutfallslega mest frá 1. desember 2024 eða um 0,3% en íbúum fjölgaði um 55 eins og áður segir. Hlutfallslega var næst mesta fjölgunin í Mosfellsbæ eða um 0,2% í desember og hlutfallið var 0,1% í Kópavogi, Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi.
Mesta fjölgunin í Garðabæ á höfuðborgarsvæðinu miðað við höfðatölu
Þegar tölur um íbúafjölda eru skoðaðar frá 1. desember 2023 til 1. janúar 2025 þá fjölgaði Garðbæingum um 1.092 á 13 mánuðum. Í Kópavogi fjölgaði íbúum á sama tíma um 828, þeim fjölgaði um 2.492 í Reykjavík, um 1.083 í Hafnarfirði, 393 í Mosfellsbæ og um 15 á Seltjarnarnesi.
Forsíðumynd: Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Garðabæ á síðustu árum m.a. á Álftanesi, og íbúum í Garðabæ fjölgað ört.