Íbúar Garðabæjar eru og eiga að vera kröfuharðir 

„Þetta var afskaplega gott og hreinskiptið samtal við íbúana,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri um íbúafund í Urriðaholti á mánudagskvöld. Fundinn boðaði Garðabær, en Almar og sviðstjórar bæjarins voru til svara. Á fundunum var farið yfir það sem efst er á baugi í hverfinu og framtíðarsýn hverfisins.

„Mér finnst gott að taka samtal um samfélagið okkar, hvað er að gerast í Garðabæ og hvað er að gerast í Urriðaholti. Við fjölluðum mikið um framkvæmdir sem hafa verið miklar á vegum bæjarins í sumar og við fundum að íbúar höfðu orðið varir við þær,“ segir Almar. Miklar umræður sköpuðust um hús sem hafa verið lengi í byggingu og íbúum finnst vera í talsverðum hægagangi. „Við ræddum mjög ítarlega um þau mál, en eðli málsins samkvæmt getum við samt ekki farið of ítarlega í mál einstakra íbúa eða eigenda eigna í bænum. Það eru nokkur hús í Urriðaholti sem hafa því miður verið alltof lengi í byggingu. Við höfum átt í stöðugu samtali við eigendur, en lítið hefur þokast. Nú teljum við málið vera komið í betri farveg, eitt húsanna er komið í söluferli og við höfum framkvæmdaáætlun sem umhverfissviðið okkar mun fylgja vel eftir. Ég vona að þetta horfi nú til betri vegar, en skil líka vel að þetta sé leiðinlegt fyrir íbúa sem bíða eftir því að hverfið verði tilbúið,“ segir Almar og bætir við að fundurinn hafi gefið gott tækifæri til þess að fara yfir málin.  

Næsti fundur á Álftanesi

„Íbúar Garðabæjar eru og eiga að vera kröfuharðir og svona fundir gefa okkur góða innsýn inn í þau daglegu verkefni sem þau eiga við í hverfinu. Við vitum hvar við þurfum að gera betur og fengum til dæmis mikið hrós fyrir innleiðingu á nýja sorphirðukerfinu og leiksvæðum í hverfinu,“ segir Almar. Næsti fundur verður haldinn á Álftanesi í haust og svo verður innbæjarfundur í Garðabæ þar næst á eftir. „Mér finnst afskaplega gott að eiga sjálfur og með bæjarskrifstofunni í góðu og reglulegu samtali við bæjarbúa,“ segir Almar.

Snjómokstur og ruslatunnur

Fleira var rætt á fundinum, meðal annars hvernig framkvæmdum vindur fram við Urriðaholtsskóla, nýjan leikskóla við Holtsveg, stöðuna á Flóttamannaveginum og svo auðvitað stígagerð í hverfinu öllu. Á meðfylgjandi myndum má sjá framvindustígagerðarinnar í hverfinu. Það er margt sem brennur á íbúum og spurningarnar voru fjölbreyttar og snerust allt í senn um samfélagsmál, snjómokstur og framkvæmdir.

Skiptar skoðanir um ágæti þess að opna út á Flóttamannaveg

En hver er staðan á Flóttamannaveginum? „Hún er sú að vegurinn er á samgönguáætlun stjórnvalda á næstu fimm árum. Alþingi á eftir að samþykkja áætlunina og þegar það er klárt þá höldum við áfram samvinnu við Vegagerðina. Nú er einnig verið að staðfesta skipulag fyrir svæðið sem gerir Flóttamannaveginn að tengibraut. Það ætti að þýða talsvert meiri áhuga á honum hjá Vegagerðinni. Það var áhugavert að það voru skiptar skoðanir um ágæti þess að opna út á veginn, en við höfum hannað hverfið þannig að akstur í gegnum það ætti að vera minna eftirsóknarverður en akstur eftir tengibrautinni sjálfri. Sumir hafa áhyggjur af því að akstur um hverfið verði hraður og aðrir hafa áhyggjur af því að búa innst í hverfinu og þurfa að komast leiðar sinnar. Þessi sjónarmið eru öll gild og við höfum reynt að samrýma þau eins og hægt er.“

Fundurinn var tekinn upp og má finna hann á vef Garðabæjar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar