Í ræktinni með Birnu og Óla í 35 ár

Líkamsrækt B&Ó hefur verið starfrækt í 35 ár á þessu ári eða frá árinu 1989, undir merkjum Almenningsíþróttadeildar Stjörnunnar í Ásgarði. Tímamótunum var að sjálfsögðu fagnað með stæl, að Laugarbakka í Miðfirði dagana 26. til 28. apríl s.l., en eins og flestir ef ekki allir vita þá eru það Birna Guðmundsdóttir og Ólafur Gíslason sem eiga og hafa rekið Líkamsrækt B&Ó allt frá upphafi.

Flestir afmælisgestirnir, komu á föstudeginum að Laugarbakka í blíðskapaveðri og nutu ánægjulegrar samverustundar um kvöldið á hótelinu, en í heildina voru það um 90 manns sem eyddu helgina saman í Miðfirðinum.

Á laugardagsmorgninum eftir morgunverð, raðaði fólk sér í bíla og lagt var af stað í skoðunarferð í fallegu og sólríku en frekar köldu veðri. ,,Farið var að Þrístöpum í Vatnsdal, þar sem Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum tók á móti okkur og fræddi okkur um síðustu aftökuna sem framkvæmd var á þessum stað 12. janúar 1830. Þar voru líflátin, Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson. Eftir um klukkustundar fyrirlestur var farið að Hólabaki, sem er sveitabær í nágrenninu, þar sem Elín Aradóttir tók á móti okkur, meðkaffi ofl. og sagði okkur frá hannyrðabúð sinni sem hún rekur á bænum. Síðan var farið að Þingeyrarkirkju þar sem að Ingvar Björnsson, maður Elínar tók á móti okkur í kirkjunni og fræddi okkur um sögu staðarins og klaustursins sem var rekið þar í nokkur hundruð ár. Eftir það var okkur boðið í safnaðarheimilið þar sem góðar veitingar biðu okkar,” segir Birna.

Þegar komið var til baka að Laugarbakka, voru Birna og Óli með uppákomu utandyra, þar sem þau afhentu afmælisgjafir til þátttakenda Líkamsræktarinnar, en það voru Jako bakpokar með merki Stjörnunnar, B&Ó og Hrímslands, sem voru stuðningsaðilir þeirra að þessu sinni.

Eftir frjálsan tíma var boðið upp á fordrykk í Grettissal í boði B&Ó, borðhald hófst skömmu síðar með hátíðarkvöldverði. Birna og Óli settu hátíðina og sögðu meðal annars frá upphafi samstarfsins, kynntu síðan til sögunnar veislustjóra kvöldsins sem var enginn annar en Magnús Magn- ússon, Maggi Diskó. Eiríkur Þorbjörnsson sá um fjöldasöng og Diskótekið Dísa sá um fjörið það sem eftir lifði kvöldsins, en það var mikið dansað og hlegið.

Eftir morgunverð á hótelinu á sunnudags- morgni fór fólk að týnast heim á leið eftir skemmtilega og ánægjulega samveru.

Afmælishátíðin tókst einstaklega vel, en B&Ó hafa haldið upp á áfangann á fimm ára fresti frá 2004 og eru ekkert að hætta samkvæmt Birnu og Óla.

Forsíðumynd: Birna og Óli hafa haldið úti Líkamsrækt B&Ó í 35 ár, vel gert það.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar