Í góðum höndum

Nú er mánuður síðan Sjálfstæðisflokkurinn tók af skarið um að lengra yrði ekki komist í stjórnarsamstarfinu með þau mál sem skipta landsmenn mestu, og lagði framhaldið í dóm kjósenda. 

Eftir þrjár vikur verður kosið um hvaða stefna tekur við næstu fjögur árin. Þegar gengið er að kjörborðinu er mikilvægt að kynna sér ekki aðeins kosningaloforð, heldur hvaða sögu flokkarnir hafa að segja í raun. Fögur fyrirheit mega sín lítils ef reynslan sýnir annað. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í næstum heila öld staðið fyrir athafnafrelsi í víðum skilningi, lagt áherslu á að fólk geti byggt sér framtíð á sínum forsendum og að farið sé vel með skattfé landsmanna. Við höfum víða þurft að læra af reynslunni og jafnvel miðlað málum helst til mikið, en ég segi þó fullum fetum að þessar áherslur sjást skýrt í framkvæmd þar sem sjálfstæðismenn eru við völd. Þetta á ekki síst við hér í Kópavogi og Garðabæ, þar sem stjórnin er í góðum höndum.

Munurinn blasir við

Í Kópavogi hefur tekist sérstaklega vel að hafa hemil á skuldasöfnun, sveitarfélagið er um margt til fyrirmyndar í þjónustu og ný nálgun í leikskólamálum hefur skilað árangri fyrir barnafjölskyldur. Í Garðabæ er fjárhagsstaðan sterk og ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hefur gert meira í að mæta mikilli þörf fyrir húsnæðisuppbyggingu. Síðastliðin 10 ár hefur íbúðum í Garðabæ fjölgað um 54%, en um 18% í Reykjavík – þrátt fyrir að ekkert sveitarfélag búi yfir stærra byggingarlandi en Reykjavík. Við ætlum að gera enn betur í þessum efnum, en gæðamunurinn er öllum augljós. 

Í höfuðborginni hefur enda önnur stefna ráðið för. Þar hafa Viðreisn og Samfylking borið uppi vinstrimeirihluta í áraraðir. Sveitarfélagið hefur hvað eftir annað brugðist þegar kemur að áætlunum í íbúðauppbygingu, staðreynd sem allir landsmenn súpa seyðið af með hærra húsnæðisverði og verðbólgu. Síðustu tvö ár vantar 1.110 íbúðir upp á að Reykjavík uppfylli húsnæðisáætlanir sínar, margfalt á við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykjavík hefur leikskóla- og dagvistunarplássum verið fækkað, ekki fjölgað, síðustu tíu ár – og vandinn vex fyrir vikið.

Allt ber að sama brunni í fjármálum borgarinnar þar sem skuldir á mann eru þær langhæstu á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf ekki að koma á óvart því á einhvern undraverðan hátt var kostnaður vegna skrifstofu borgarinnar 83% hærri á íbúa en gengur og gerist í annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Skýrir valkostir

Hægt er að halda lengi áfram en lærdómurinn er skýr: Þar sem sjálfstæðismenn eru í meirihluta er meira byggt, þjónusta betri, skattar og gjöld lægri. Þar sem Viðreisn, Samfylking og fylgitungl þeirra bera uppi vinstristjórnir er minna byggt, þjónustan verri og álögur hærri.

Þegar flokkar með slíka stefnuskrá segjast ætla að gera eitthvað allt annað og betra í landsmálunum, þá er ástæða til að hugsa sig tvisvar um. Rætt er um hækkun ýmissa skatta og nýir boðaðir, nú er talað um ,,tómthússkatt” og sérstakt markmið sagt að auka útgjöldin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá stefnu að verðmætasköpun í landinu sé grunnurinn og að stilla þurfi álögum í hóf. Mikilvægt sé að skapa störf, fjárfestingu og öflugt atvinnulíf. Slík stefna muni gera okkur kleift að styrkja innviði, efla þjónustu og tryggja þéttriðið net velferðar. Þannig höfum við náð að skipa okkur í fremstu röð meðal þjóða á mælikvarða lífsgæðanna.  

Höldum áfram á réttri braut, sækjum meiri árangur fyrir okkur öll. 

Bjarni Benediktsson, höfundur er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar