Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópransöngkona kemur fram á hádegistónleikum í Tónlistarskóla Garðabæjar miðvikudaginn 6. október næstkomandi ásamt eiginmanni sínum, spænska klassíska gítarleikaranum Francisco Javier Jáuregui.

Hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku

Guðrún hefur komið fram á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires, Wig-more Hall og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið m.a. með Sinfóníuhljómsveitum Íslands, Madrídar, Barselóna, Katalóníu, Sjónvarps- og Útvarpshljómsveit Spánar, St. Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London. Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi og frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld, sem mörg hver hafa verið samin sérstaklega fyrir hana. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir söng sinn og sungið inn á sextán geisladiska. Guðrún stofnaði og stjórnar, ásamt Francisco Javier Jáuregui, Sönghátíð í Hafnarborg.

Mjög spennt að koma fram í Garðabæ

Garðapósturinn spjallaði við Guðrúnu og spurðist frétta. ,,Við Francisco Javier erum mjög spennt að koma fram í Garðabæ á tónleikunum Hvíld. Þar flytjum við falleg íslensk sönglög, í útsetningum fyrir rödd og klassískan gítar. Við njótum þess að standa á sviðinu á ný eftir alla óvissuna og ítrekaða niðurfellingu tónleika og óperu sem fylgt hefur covid,” segir Guðrún og heldur áfram: ,,Hljómburðurinn í sal Tónlistarskóla Garðabæjar er mjög góður og hentar sérstak-lega vel fyrir klassískan söng. Við Francisco Javier erum hjón og fluttum ásamt börnunum okkar tveimur til Íslands í fyrra.

Varstu búin að búa lengi erlendis? ,,Ég var búin að búa erlendis í tuttugu ár þegar við fluttum til landsins í fyrra. Eftir að ég lauk námi í söng frá Tónlistarskólanum í Reykjavík fór ég til London, þar sem ég lauk mastersgráðu og óperudeild í söng frá Guildhall School of Music and Drama. Þar kynntist ég líka manninum mínum. Þegar námi lauk dvaldi ég í eitt ár til viðbótar í London og söng þar og annars staðar. Þá ákváðum við að flytja til Madrídar, þar sem fjölskylda Javiers býr, og bjuggum þar í 16 ár.”

Saknaði alltaf fjölskyldu og vina hérna heima

Hvernig var að búa svona lengi fjarri heimahögunum? ,,Ég hef alltaf haldið miklu sambandi við landið þrátt fyrir að hafa búið erlendis svona lengi. Ég kom alltaf nokkrum sinnum á ári til Íslands að syngja og hitta fjölskylduna. Þar að auki stjórnaði ég Kammertónleikum á Kirkjubæjarklaustri í 11 ár þangað til árið 2017 þegar við Javier stofnuðum saman Sönghátíð í Hafnarborg, sem hefur verið haldin árlega síðan. Það er mjög gott að búa í hinni sólríku Madrídarborg en ég saknaði samt alltaf fjölskyldu og vina hérna heima.”

Það var enginn á götunum nema lögregla og her

Hvernig kom til að þið fluttuð til Íslands? ,,Það var í raun covid sem ýtti við okkur og það má segja að við flúðum frá Spáni til Íslands. Samkomutakmarkanir á Spáni voru miklu harðari heldur en á Íslandi. Þegar við fjölskyldan höfðum verið innilokuð á heimilinu í fjórar vikur samfleytt án þess að krakkarnir mættu svo mikið sem fara yfir þröskuldinn á útidyrunum, ekki einu sinni út í garð, allt þeirra nám var komið á netið, öllum okkar tónleikum og óperu hafði verið aflýst og við kenndum bara á netinu sáum við að það skipti í raun ekki máli hvar við vorum í heiminum. Fjölskyldan okkar á Íslandi sá að Utanríkisráðuneytið var að skipuleggja síðasta beina flugið frá Spáni til Íslands um ófyrirsjáanlega framtíð. Allir Íslendingar sem vildu komast til Íslands voru hvattir til þess að fjölmenna í flug 7. apríl 2020 frá Alicante til að verða ekki innlyksa á Spáni. Við ákváðum með tveggja daga fyrirvara að fara til Íslands með þessu flugi, pökkuðum eins miklu og við gátum í ferða-töskur, skönnuðum helling af nótum og tókum gítar Javis, fiðlu dóttur okkar og selló sonar okkar, enda vissum við ekki hvenær við myndum snúa aftur til Madrídar. Á þessum tíma var ferðabann á Spáni svo við þurftum að fá sérstakt leyfisbréf frá Sendiherra Íslands og annað leyfisbréf til að sýna fram á vinnu við Sönghátíð í Hafnarborg til að mega ferðast. Það var enginn á götunum nema lögregla og her og ef einhver var á ferðinni var hann stoppaður. Þetta var eins og í vísindaskáldsögu. En að lokum náðum við til Íslands sem tók okkur opnum örmum. Hérna var ástandið svo miklu betra og smám saman fórum við að velta fyrir okkur möguleikanum á að flytja til landsins. Við vorum svo heppin að fá störf við söngkennslu og gítarkennslu sem og Starfslaun listamanna fyrir ýmis verkefni sem við erum að vinna að. Núna erum við ótrúlega ánægð með að hafa tekið þessa veigamiklu ákvörðun og njótum þess að búa á Íslandi, þar sem börnin okkar slípa íslenskuna í Langholtsskóla og hafa náð mjög vel að aðlaga sig að íslensku samfélagi.”

Flytja gullfalleg íslensk sönglög

Hvað ætlarðu að syngja á tónleikunum? ,,Við flytjum gullfalleg íslensk sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns, Atla Heimi Sveinsson, Jón Ásgeirsson, Huga Guðmundsson, Hauk Tómasson og okkur sjálf. Titill tónleikanna, Hvíld, vísar í samnefnt lag eftir Huga Guðmundsson (f. 1977) við ljóð eftir Snorra Hjartarson. Það er gaman að segja frá því að Hugi ólst upp í Garðabæ en er nú búsettur í Danmörku og hefur undanfarið haslað sér völl sem eitt af virtustu tónskáldum sinnar kyn-slóðar. Sem klassísk söngkona syng ég mikið á helstu tungumálum sönghefðarinnar, það er á ítölsku, ensku, spænsku, þýsku, frönsku, latínu og norðurlandamálunum eins og aðrir klassískir söngvarar um víða veröld. En mér finnst það sérstaklega mikilvægt að leggja rækt við þau menningarverðmæti sem felast í íslenskri ljóðlist og tónlist og syngja á íslensku. Þar að auki hef ég alltaf sérstaka tengingu við ljóð á móðurmálinu, þau tala enn beinna til hjartans en ljóð á erlendum tungumálum.”

Tónleikar Guðrúnar og Javiers í sal Tónlistarskóla Garðabæjar eru liður í hádegistónleikaröðinni Tónlistarnæring sem verða á dagskrá í hverjum mánuði en tónleikarnir hefjast kl. 12.15 miðvikudaginn 6. október. Heildardagskrá menningarmála má nálgast á tónleikunum eða í þjónustuveri Garðabæjar, Hönnunarsafni Íslands eða Bókasafni Garðabæjar en einnig má kynna sér dagskrána á vef Garðabæjar undir Mannlíf.

Skilja eftir athugarsemd

Vinsamlegast sláðu inn athugasemdina þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér