Hvers vegna rafíþróttir?

Rafíþróttir er nýtt hugtak og á undanförnum árum hefur greinin vaxið hraðar en aðrar íþróttagreinar. Almennt í umræðunni gætir vanþekkingar á málefninu og ekki laust við að umræðan sé stundum neikvæð. Fólk kannski eðlilega tengir rafíþróttir við almenna tölvuleikjanotkun. Rafíþróttir er annað og miklu meira.  

Göfug markmið.

Íþróttahreyfingar hafa það markmið að stuðla að betri heilsu og andlegri líðan barna. Rafíþróttir eru ekkert frábrugðnar öðrum greinum hvað það varðar. Rafíþróttasamtök Íslands (RÍSÍ) eru samtök sem stofnuð voru með það markmið að byggja upp skipulagt starf rafíþrótta á Íslandi. Samtök eins og RÍSÍ byggja upp sína starfsemi á grasrótarstarfsemi sem kennir börnunum að umgangast tölvuleiki með skynsamlegum hætti. Íþróttahreyfingar og félagasamtök um rafíþróttir skilgreina þrjár lykilaðgerðir í sinni nálgun; mikilvægi líkamlegrar hreyfingar, leikjafræði og þjálfun með áherslu á andlegan undirbúning, og hvað er skynsamlegt og gott mataræði. 

Rafrænn raunveruleiki.

Það eru tvær leiðir færar við breytingar: hafna þeim eða fagna þeim. Almennt frestum við hinu óumflýjanlega með því að spyrna við þróun og í raun ættum við frekar að leitast við að skilja betur hinn rafræna heim ungmenna. Þegar við tökum breytingum samfélagsins með opnum örmum og hjálpum börnum og ungmennum að fóta sig í rafrænum heimi, hvort sem um er að ræða tölvuleiki eða annað, lætur árangurinn ekki á sér standa.

Náum til barna sem við náðum ekki til.

Mikil fjölgun iðkenda og vakning um rafíþróttir er afar jákvæð fyrir þær sakir að flestir iðkendanna eru börn sem hafa lítinn áhuga á þátttöku í hefðbundnu íþróttastarfi. Með því að styrkja starfsemi rafíþrótta erum við að ná til hóps ungmenna sem hingað til hefur átt í meiri rafrænum samskiptum við umheiminn en að hitta jafnaldra auglitis til auglitis. Rannsóknir og reynsla hafa sýnt að börn sem við náum til í gegnum rafíþróttir auka félagsfærni og auka áhuga þeirra á líkamlegri hreyfingu, svefnvenjum og mataræði.     

Rafíþróttir og Garðabær.

Innan CrossFit XY sem staðsett er í Garðabæ fyrirfinnst Esport deild sem blandar saman   hugmyndafræði CrossFit og rafíþrótta. Í skipulögðu starfi XY Esports fá iðkendur allt það besta af sviði rafíþrótta í bland við þjálfun andlegrar og líkamlegrar heilsu í jákvæðu og uppbyggilegu umhverfi. Undirritaður kynnti sér þessa starfsemi vel sem fyrrum starfsmaður Stjörnunnar og var á teikniborðinu metnaðarfullt samstarf á milli félaganna sem aldrei varð að veruleika sökum COVID.   

Framsókn styður rafíþróttir.

Framsókn hefur stutt dyggilega við uppgang rafíþrótta og nýlega var samþykkt ályktun á flokksþingi um stofnun afrekssjóðs rafíþróttaiðkenda. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra undirritaði samkomulag við RÍSÍ í  Arena, nýs þjóðarleikvangs rafíþrótta á Íslandi, sem er ætlað að efla þætti er stuðla að góðri geðheilsu ásamt því að veita upplýsingagjöf um þá þjónustu sem í boði er fyrir börn og ungmenni sem glíma við andlega vanlíðan. Ég vil auka vitundarvakningu innan Garðabæjar á málefnum rafíþrótta í aukinni samvinnu við íþróttafélög bæjarins. Rafíþróttir eru stórt forvarnarmál.   

Einar Örn Ævarsson skipar 4. sæti lista Framsóknarflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar