Hvers vegna Katrínu?

Forsetakostningar nálgast og óhjákvæmilegt að bera saman og meta kosti frambjóðenda. Eftir að hafa hlustað á frambjóðendur flytja mál sitt, þá er ég ekki í vafa um hvern ég kýs. Það er hún Katrín Jakobsdóttir sem fær mitt atkvæði. Hún hefur þá kosti sem ég vil sjá hjá forseta Íslands.

Katrín hefur unnið fyrir þjóð okkar af heilindum og mikilli elju í áraraðir. Hún þekkir stjórnskipan og allt gangverk samfélagsins okkar vel. Mér líka áherslur hennar þegar hún talar um mannréttindi, jafnrétti, frið, og lýðræði. Í umhverfis og loftslagsmálum hefur hún yfirgripsmikla þekkingu sem er ómetanlegt fyrir framtíð okkar.

Katrín hefur mikla reynslu af þjóðmálum sem er gríðalega stór kostur fyrir forseta að hafa og treysti ég henni fullkomnlega fyrir því að láta ekki flokkspólitík trufla sig í störfum sínum sem forseta. Ég efast ekki um dómgreind hennar þegar kemur að því að rækja stjórnarfarslegt hlutverk forseta.

Hún talar af dýpt, visku og þekkingu um málefnin og umræðan verður því innihaldsrík. Áhersla hennar á íslenska tungu, menningararf og rætur okkar sem þjóðar eru sett fram af þekkingu og skilningi.

Sýn hennar á samfélagið sem er fyrir okkur öll, virka þátttöku borgaranna í sjálfboðaliðastarfi, íþrótta- og æskulýðsstarfi og menningarstarf eru þættir sem tengja fólk saman og styrkja þjóðarsálina. Mikilvægi hvers einstaklings, hvernig hver og einn verður að blómstra á sínum forsendum er hugsun sem ég kann að meta.

Um leið og Katrín talar skýrt og af festu þá er framkoma hennar alúðleg og alþýðleg, einlæg og sönn. Hún er mannasættir en hefur ekki forðast að taka stórar og erfiðar ákvarðanir.

Það er greinilegt að flestir sem hafa unnið náið með henni í gegnum tíðina styðja hana í þessu forsetakjöri, treysta henni og mæla eindregið með henni í þetta mikilvæga hlutverk. Það segir nokkuð um hvernig hún er í samstarfi á vinnustað.

Yfirgripsmikil þekking hennar á alþjóðamálum og persónuleg tengsl hennar við leiðtoga þjóða og félagasamtaka mun koma Íslandi vel. Hún hefur sýnt það með störfum sínum að það er tekið mark á henni í samstarfi þjóða.

Hún Katrín Jakobsdóttir tikkar að mínu mati í öll boxin, hefur alla þá kosti sem príða þurfa góðan forseta. Hún veit hvað hún er að fara út í, hún þarf ekki langan tíma til að aðlagast starfi forseti Íslands. Ég hvet alla til að kynna sér málflutning hennar og hlusta á hvað hún hefur fram að færa – þá verður val ykkar auðvelt.

Kjósum Katrínu.

Margrét Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar