Hjólað í vinnuna 5-25. maí
Íbúar í Garðabæ og Kópavogi og vinnustaðir í Garðabæ og Kópavogi eru hvattir til að taka þátt í verkefninu Hjólað í vinnuna sem fer fram dagana 5. – 25. maí 2021. Veðrið leikur sannarlega við höfuðborgarbúa um þessar mundir og tilvalið að taka þátt í verkefninu.
Opnað hefur verið fyrir skráningar og hægt er að skrá sig allan tímann á meðan keppni stendur yfir eða fram til 25. maí, þó mælt sé með að skrá sig sem fyrst til leiks. Þátttökudagar í verkefninu eru alls 13 talsins.
Mikilvægt er fyrir vinnustaði landsins að huga að starfsandanum á þessum fordæmalausu tímum og er verkefnið Hjólað í vinnuna góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman, en auðvitað á sama tíma að virða 2 metra fjarlægðarmörkin. Fólk gengur, hjólar eða ferðast með öðrum virkum hætti þá vegalengd er samsvarar vegalengd til og frá vinnu og skráir þá kílómetra inn í kerfið. Hægt er að nota hvaða virka ferðamáta sem er en rafhlaupahjól telja þó ekki með.
Umhverfisvænn ferðamáti
Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu ásamt því að vekja athygli á virkum ferðamáta og eru hjólreiðar bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Hjólreiðar eru frábær útivist, hreyfing og líkamsrækt. Íþrótta- og Ólympíusamband Ísland hvetur landsmenn til að hreyfa sig daglega og ekki síst taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem Hjólað í vinnuna er. Á vef Hjólað í vinnuna eru einfaldar og góðar leiðbeiningar um hvernig hægt er að skrá sig til leiks.
Kortavefur Garðabæjar og Kópavogs
Á kortavef Garðabæjar og Kópavogs er hægt að sjá kort yfir göngu- og hjólastíga í bæjarfélögunum, með því að smella á Samgöngur og haka við mismunandi gerðir stíga. Á kortavefnum er einnig hægt að velja sína eigin leið og mæla vegalengdir. Auk þess sem hægt er að skoða daglegar tölur úr hjóla- og gönguteljurum sem eru staðsettir á nokkrum stöðum í bæjarlandinu.