Nýliðar Subway-deildarinnar í körfuknattleik, Álftanes, ætla greinilega að mæta með keppnishæft lið til leiks þegar deildin hefst að nýju næsta haust því á dögunum samdi félagið við tvær af stærstu stjörnum íslensks körfuknattleiks, landsliðsmennina Hörð Axel Vilhjálmsson, sem kemur frá Kelfavík og Hauk Helga Pálsson, sem kemur frá Njarðvík. Þá framlengdi Kjartan Atli Kjartansson samning sinn sem þjálfari Álftanessí þar síðustu viku, en Kjartan sem er uppalinn Álftnesingur, tók við heimaklúbbnum á síðasta tímabili og tryggði liðinu sæti í Subway deildinni.
Garðapósturinn ræddi við Hugin Frey Þorsteinsson, formann körfuknattleiksdeildar Álftaness og spurði hann nánar um þessu áhugaverðu félagaskipti og á hvaða vegferð körfuknattleiksdeildin er á því félagið er ekki hætt á leikmannamarkaðinum.
Höfum verið í þessari stöðu áður að sannfæra góða leikmenn og þjálfara
Ég held svei mér þá að það hafi ekki gerst áður að félag sem er í fyrsta skipti í sögunni að leika í efstu deildinni í körfuknattleik hafi samið við tvö stærstu nöfnin og dýrustu bitana á leikmannamarkaðinum þótt sjálfsagt hafi einhver önnur félög fengið þessa flugu í höfuðið í gegnum tíðina án aðgerða eða árangurs. Segðu mér, hvernig náðuð þið að sannfæra þessa leikmenn að koma og leika fyrir nýliða Álftaness, voru það fyrst og fremst peningarnir sem töluðu því þetta eru ekki ódýrustu bitarnir á leikmannamarkaðnum eða var fleira sem fylgdi með og sannfærði þá? ,,Það eru alls kyns ástæður sem valda því að leikmenn ákveða að ganga til samninga við lið. Við höfum verið í þeirri stöðu áður að þurfa að sannfæra góða leikmenn eða þjálfara að koma til okkar. Þannig þurfti að sannfæra Hrafn Kristjánsson að þjálfa liðið í 2. deild, maður sem var hokinn af reynslu í þjálfun og þjálfaði bæði Stjörnuna og KR. Hið sama var upp á teningnum þegar við fengum Cedrick Bowen og Dino Stipcic til liðs við okkur sem vorum leikmenn sem þóttu kannski aðeins of stór númer fyrir okkur. Við vorum með mjög sterkt lið í fyrra í fyrstu deild sem þótti bera vott um metnað,” segir Huginn.
Það sem er heillandi við Álftanes er að við erum að skrifa okkar eigin sögu
,,Hvað varðar Hauk og Hörð að þá lögðum við bara spilin á borðið um hver markmið Álftanes væru og þeir gætu orðið lykilmenn í að ná þeim með okkur. Það sem er heillandi við Álftanes er að við erum að skrifa okkar eigin sögu, við erum með afar öflugan þjálfara og góða umgjörð. Álftanes er því spennandi kostur fyrir leikmenn eins og þá sem hafa séð allt á sínum ferli,” segir hann og bætir við: ,, En ég vil líka nefna að það er auðvitað mikill áfangi fyrir Álftanes að endursemja við Kjartan Atla sem er framúrskarandi körfuboltaþjálfari. Þetta var algjört forgangsmál hjá stjórninni að halda Kjartani enda líka auðveldara að ná í leikmenn þegar menn vita af öflugum skipstjóra í brúnni.”
Ákvörðun tekin um stórkostlega vegferð 2016
Það eru ekki nema rétt rúmir tveir mánuðir síðan þið tryggðuð ykkur sæti í Subway-deildinni og það má öllum vera ljóst að þið hafið ekki setið auðum höndum. Hvernig var það þegar sætið í Subway-deildinni var í húsi, settust menn þá strax niður og ákváðu að fara í einhverja stórkostlega vegferð með körfuknattleikslið Álftaness? ,,Í raun var ákvörðun tekin um stórkostlega vegferð fyrir mögum árum, eða þegar liðið var skráð í 3. deild árið 2016, en síðan þá hefur þetta gengið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Fyrir hvert tímabil höfum við sett okkur tiltekin markmið og sammælst um tiltekna strategíu til að ná þeim mark-miðum. Það á við um næsta tímabil í Subway eins og þau fyrri þó svo að stærð verkefnisins er miklu umfangsmeira á næsta tímabili en áður. Við erum því á stórkostlegri vegferð og ætlum að halda henni áfram.”
Við fáum stuðning víða að líkt og önnur félög
Nú er vitað að þetta hefur þegar kostað ykkur skildinginn og þið ætlið að bæta við leikmönnum. Hvaðan kemur þetta fjármagn, eruð þið með öfluga styrktaraðila og gallharða Álftnesinga á bak við ykkur hér á nesinu sem var auðvelt að sannfæra um að vera með partíinu? ,,Við fáum stuðning víða að líkt og önnur félög. Það eru alls kyns fjáraflanir, móta- og námskeiðahald, sala skilta og auglýsinga í húsið, öflugir styrktaraðilar og stuðningsmenn sem leggja félaginu til. Sjálfur er ég mjög spenntur fyrir kótilettukvöldinu sem verður til stuðnings körfunni á næsta tímabili en svo verða alls kyns aðrir viðburðir líka. Svo auðvitað hjálpar til upp á miðasölu og fjáraflanir að tefla fram öflugu liði.”
Teljum að Hörður og Helgi munu báðir eiga frábært tímabili hjá okkur
Þetta eru tveir stórir samningar sem þið eruð búnir að gera við Hörð Axel og Hauk Helga, enda frábærir leikmenn, en er þetta viss áhætta hjá ykkur, Hörður Axel verður 35 ára á árinu og Haukur Helgi búinn að vera mikið meiddur á undanförnum árum? ,,Við teljum að Hörður og Helgi mun báðir eiga frábært tímabili hjá okkur og að þeir passi vel inn í þann hóp sem við erum með.”
Það eru alltaf allskyns orðrómar í gangi
Það var orðrómur í gangi að Haukur Helgi og Hörður væru á leiðinni í Stjörnuna ásamt Ægi Þór Steinarssyni. Voru þið í baráttu við granna ykkar um þessa leikmenn og höfðuð á endanum betur? ,,Það eru alltaf allskyns orðrómar í gangi í tengslum við leikmannamál þannig að maður veit aldrei hvað er rétt og rangt í þeim efnum. Við erum ekki mikið að leiða hugann að því sem aðrir eru að gera heldur hugsum við fyrst og fremst um okkar markmið,” segir hann.
Stefnum að því að styrkja hópinn okkar enn frekar
Þú hefur sagt í viðtölum að þið ætlið að bæta enn frekar við leikmanna- hópinn, er Ægir Þór á leiðinni í Álftaness eða eru þið að horfa út fyrir landsteinana að leikmönnum – hvað stefnið þið á að bæta við ykkur mörgum leikmönnum til viðbótar? ,,Við stefnum að því að styrkja hópinn okkar enn frekar og við lítum einnig út fyrir landsteinana í þeim efnum. En aðalatriðið er þó að leikmennirnir passi inn í þann hóp sem við erum að setja saman.”
Þessu er öfugt farið
En hvað með leikmennina sem komu ykkur upp í Subway-deildina – er þeim ekki treyst fyrir þessu verkefni í deild þeirra bestu? ,,Þessu er nú einmitt öfugt farið. Það verður öflugur kjarni leikmanna sem hafa spilað með félaginu áfram lykilmenn í Subway deildinni og þessi kjarni auðveldar þau stóru skref sem eru að fara upp í efstu deild. Við vorum með frábæran hóp í fyrra og við erum að endursemja við marga úr þeim hópi. En eins og gengur eru líka alltaf einhverjir sem fara annað og eðlilegar breytingar sem eiga sér stað.”
Aðstaðan er til fyrirmyndar og margir sjálfboðaliðar
En hvernig er aðstaðan og umgjörðin hjá ykkur, er Forsetahöllin tilbúin fyrir Subway-deildina og þurfið þið ekki töluvert að sjálfboðaliðum til að starfa þegar leikir eru? ,,Forsetahöllin er einstakur staður og hentar sérstaklega vel til körfuboltaiðkunar. Garðabær hefur ráðist í miklar endurbætur þar með nýju gólfi, stigatöflu og ýmsu öðru þannig að aðstaðan er til fyrirmyndar. Við höfum svo notið þeirrar gæfu að hafa marga sjálfboðaliða sem hafa hjálpað okkur með að halda utan um leikdagana sem maður er ofboðslega þakklátur fyrir. Þá finnum við fyrir gífurlegum stuðningi í samfélaginu og þannig að fleiri eru farnir að gefa sig að starfinu,” segir Huginn.
Það þarf að stækka stúkuna fyrir næsta vetur
Þið fenguð góðan stuðning sl. vetur og má ekki reikna með að uppselt verði á alla leiki í Forsetahöllinni næsta vetur? ,,Mætingin á leiki í fyrra var frábær og stemmningin svakalega góð. Við búumst við góðri mætingu næsta vetur og helstu áhyggjur okkar eru að stúkan er of lítil þannig að það þarf að stækka stúkuna fyrir næsta vetur þannig að það sé gott pláss fyrir stuðningsmenn.”
Fyrir samfélagið á Álftanesi er þetta gríðarlega mikilvægt
Hvað á þetta eftir að gera fyrir Álftanes, samfélagið, að eiga lið á meðal þeirra bestu? ,,Fyrir samfélagið á Álftanesi er þetta gríðarlega mikilvægt. Leikur í Subway deild verður stór viðburður á Álftanesi og ákveðinn miðpunktur fyrir samfélagið. Krakkar og fullorðnir fjölmenna á leiki og úr verður hin mesta skemmtun. Þá hefur yngri flokka starfið vaxið mikið samhliða góðu gengi í meistaraflokki sem er hvatning fyrir alla. Fyrir mig sjálfan hef ég eignast trausta vini í gegnum þetta starf. Og er það ekki þannig sem íþróttastarf að vera; að tengja fólk saman í gegnum áhuga á íþróttum,” segir hann.
Garðabær er hinn nýi körfuboltabær
,,Árangur Álftaness er ekki síður lyftistöng fyrir Garðabæ, en ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu er með tvö lið í efstu deild á næsta tímabili. Þannig að Garðabær er hinn nýi körfuboltabær sem er ánægjulegt þar sem körfubolti er í miklum vexti um þessar mundir eins og best sást í nýafstaðinna úrslitakeppni Subway deildarinnar,” segir Huginn.
Allt tal um stórveldi er algjörlega ótímabært
En með þessa leikmenn sem komu ykkur upp í efstu deild ásamt Herði Axeli, Hauk Helga og svo fleiri nýjum leikmönnum sem eiga eftir að bætast við, eru þið þá að stefna á toppinn og búa til nýtt stórveld í körfuknattleik? ,,Við erum auðvitað að fá leikmenn eins og Hörð Axel og Hauk Helga til að nýta reynslu þeirra inn í lið sem aldrei hefur spila í Subway áður þannig að fyrsta markmið okkar er að búa til stöðugleika í kringum liðið. Allt tal um stórveldi er algjörlega ótímabært enda verður slíkt til á grunni árangurs. En það er mikil spenna í kringum komu þeirra hingað í Forsetahöllina og við skynjum aukinn áhuga á starfinu,” segir hann.
Við erum að byggja upp til langs tíma og markmiðasetning okkar ber merki þess
Og þið eruð að hugsa þetta til lengri tíma? Það er ekki verið að blása í ein-hverja blöðru sem mun svo springa innan 2 til 5 ára. Álftanes er komið til að vera á meðal þeirra bestu? ,,Ég held að allir sjái að með því að halda í sterkan kjarna leikmanna, sem og að ná í Hörð og Hauk, sýni að metnaður okkar liggur í að vera með sterkt lið í Subway deildinni. Og við aukum líkurnar á því að verkefnið heppnist með því að stilla upp þessu liði. Við erum að byggja upp til langs tíma og markmiðasetning okkar ber merki þess. Þess má geta að við höfum þegar fengið mikil viðbrögð við okkar tilkynningum og fyrirspurnir um árskort og aðilar sem vilja styðja við bakið á okkur haft samband. Ég held að eitt það erfiðasta sem lið, sem koma upp úr fyrstu deild, lenda í er að detta aftur niður strax og eiga mjög erfitt tímabil í efstu deild.”
Hver verður með „montréttinn“ í Garðabæ?
Og með komu ykkar í deild þeirra bestu þá eru áhugaverðar nágrannarimmur framundan á móti Stjörnunni. Það verða væntanlega svakalegir leikir þegar stóri bróðir mætir litla bróðir, en hvor er litli og hvor er stóri bróðir? ,,Þegar Álftanes og Stjarnan mætast verður körfuboltahátíð í Garðabæ enda risaviðburður. Við vitum að Stjörnumenn munu mæta með hörkulið eins og alltaf. Og svo sjáum við hver verður með „montréttinn“ í nokkra daga eftir leikina í vetur. En aðalatriðið er að troðfylla Forsetahöllina og Ásgarð og horfa á hörku körfubolta,” segir Huginn fullur tilhlökkunar fyrir komandi körfuboltatímabili.
Forsíðumynd: Hvalreki! Huginn Freyr og Haukur Helgi þegar samningur var í höfn