Við könnumst mörg við tilfinninguna, að standa svolítið þreytt, svolítið tætt, á aðfangadagskvöld með eftirvæntingu í maganum. Það er matarlykt í loftinu, börnin snúast um sjálf sig og spyrja endurtekið hvenær þau megi opna gjafirnar sínar.
Þrátt fyrir áherslu markaðsaflanna á gjafir og föt og aðra veraldlega hluti í aðdraganda jólanna, eru þeir ekki það sem við munum eftir eða höldum sérstaklega upp á úr æsku. Í mínu tilfelli er biðin eftir því að uppvaskið væri klárað áður en pakkarnir voru opnaðir það sem situr helst eftir. Eftirvæntingin sjálf. Samveran með fjölskyldunni, að fá að hjálpa til með jólaölið. Ég held það megi vel fullyrða að það sem er eftirminnilegt og dýrmætt við jólin er óáþreifanlegt, en það sem gerir þau að streituvaldi er það jafnan líka.
Líkt og margt annað sem viðkemur hinni svokölluðu þriðju vakt er skipulagið í kringum jólin oftar en ekki á herðum kvenna. Allt sem þarf að halda utan um til þess að hátíðarhöldin gangi smurt fyrir sig reddast víst ekki nema einhver reddi því. Það er oft einkenni góðs skipulags að þau sem ekki standa að því sjálf taka ekki eftir því. Einhverra hluta vegna stendur jólamaturinn samt fulleldaður á borðinu, gjafirnar eru innpakkaðar og vel valdar, skreytingar á sínum stað, smákökur á borðinu og enginn farinn í jólaköttinn. Allt hefur þetta gerst samhliða óteljandi jólahittingum með fjölskyldunni, í skólum og í tómstundum barnanna. Þvílíkir töfrar!
Bætum fjárhagsáhyggjum við þessa jöfnu og það er engin furða að jólin séu mörgum erfið. Þau eru það nú þegar fyrir margt fólk, til dæmis þau sem ekki geta verið með þeim sem þau elska á jólunum. Kröfurnar eru miklar og væntingarnar sömuleiðis, oftar en ekki okkar eigin.
Það styttist í jólin, enn og aftur. Þau koma þótt við klárum ekki sörubakstur og þótt jólaklippingin hafi gleymst. Klukkurnar hringja, Útvarp Reykjavík, gleðileg jól. Við föðmum að okkur fólkið sem stendur okkur næst og skyndilega skiptir litlu máli að eldhússkáparnir séu ekki dauðhreinsaðir eða að sósan sé pínulítið misheppnuð þetta árið. Því jólin eru samveru-, friðar- og kærleikshátíð og jólin koma alltaf.
Munum að sýna sjálfum okkur mildi, hjálpumst að í undirbúningnum og minnum hvert annað á það sem skiptir raunverulega máli. Fyrir hönd Garðabæjarlistans óska ég öllum bæjarbúum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir.
Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans og bæjarfulltrúi.