Hvatapeningar hækkuðu úr 55.000 í 60.000 krónur á barn um áramótin. Öll börn á aldrinum 5-18 ára, með lögheimili í Garðabæ, fá hvatapeninga, þ.e. börn fædd á árunum 2007-2020.
Hvatapeningana er hægt að nýta til að greiða niður gjöld í skipulögðu íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi sem stundað er reglulega. Skilyrði þess að hægt sé að nýta hvatapeningana er að um skipulagt starf sé að ræða sem er stundað undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda og nær yfir eina önn eða að lágmarki 10 vikur. Undantekning eru 5 og 6 ára börn þar sem lágmarkstímalengd námskeiða er 20 kennslustundir óháð vikufjölda. Þetta á t.d. við um allt íþróttastarf sem stundað er á vegum viðurkenndra íþróttafélaga, sumarnámskeið, dans í dansskólum og skátastarf.
Hægt er að sækja um 15.000 króna „viðbótarhvatapeninga“ í þjónustugátt Garðabæjar ef heildartekjur heimilis eru að meðaltali undir 856.000,- kr. á mánuði hjá einstaklingi, eða 1.049.000,- kr. hjá sambýlisfólki (m.v. launavísitölu 1. janúar 2025). Miðað er við meðaltekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá fyrir síðustu þrjá mánuði þegar umsókn er send inn.
Hvatapeningana er ekki hægt að nýta til að kaupa árskort í líkamsræktarstöðvum en skipulögð unglinganámskeið og dansnámskeið innan líkamsræktarstöðva falla undir styrkinn. Undantekning frá þessu eru ungmenni í þremur elstu árgöngunum, þ.e. 16, 17 og 18 ára (fædd 2007, 2008 og 2009), þau geta nýtt hvatapeningana til að kaupa kort í líkamsræktarstöðvum.
Hægt er að nýta hvatapeninga til þess að greiða niður tónlistarnám, bæði í Tónlistarskóla Garðabæjar og öðrum tónlistarskólum.
Ástæða þess að sveitarfélög um land allt hafa tekið upp slíkar hvatagreiðslur eru niðurstöður langtíma rannsókna á líðan íslenskra barna og ungmenna. Rannsóknirnar sýna að þátttaka í slíku starfi, sem nær yfir að minnsta kosti 10 vikur, hefur marktæk áhrif á bætta vellíðan og minni „vandamál“. Íþróttastarf og skátastarf vegur þar langþyngst á metum.
Sjá nánar á vefsíðu Garðabæjar, gardabaer.is