Húseigendur veigra sér við að láta farga ungunum – Mikill ágangur sílamáva í Sjálandi

Ágangur sílamáva í Sjálandshverfi við Arnarnesvog hefur verið mikill á síðustu árum og hafa íbúar óskað eftir því við bæjaryfirvöld í Garðabæ að þau komi með einhver úrræði til að minnka ágang mávanna í hverfinu, en þeim fylgir bæði ónæði og hávaði.

Á síðasta fundi umhverfisnefndar Garðabæjar var ákveðið að boða til íbúafundar þann 12. apríl næstkomandi.

Stella Stefánsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar

Návígi manns og náttúru getur kallað á áskoranir

,,Mikil lífsgæði felast í umhverfi okkar Garðbæinga og ósnortinni náttúru í grennd við byggð. Návígi manns og náttúru getur líka kallað á áskoranir. Í friðlandinu Gálgahrauni, sunnan við Sjálandshverfi, er stórt varpland máva. Bænum berast reglulega erindi út af sílamávum í Sjálandshverfinu. Ágangur sílamáva í Sjálandinu er síður en svo einsdæmi og er víða áskorun þar sem byggt er nærri varplandi. Á síðustu árum hafa íbúar kallað eftir að bæjaryfirvöld grípi til aðgerða. Garðabær hefur farið fram á það við Umhverfisstofnun að bærinn fengi leyfi til að fækka sílamávum með því að stinga á egg í Gálgahrauni, en svæðið þar er friðlýst. Stofnunin hefur ekki gefið leyfi fyrir undanþágu,” segir Stella Stefánsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar.

Bænum berast reglulega erindi út af sílamávum í Sjálandshverfinu

Húseigendur veigra sér við að láta farga ungunum

,,Garðabær hefur einnig verið í góðu sambandi við meindýraeyða og fuglafræðinga um þennan vanda. Fuglafræðingar telja fjölda máva ekki óeðlilega mikinn en stofninn sveiflast með fjölda síla í sjónum. Þegar þau minnka sækir mávurinn meira upp á land í leit að æti. Meindýraeyðar hafa bent á að eigendur húsnæðis eða húsfélög geti t.d. sett upp fælur á þök, eins konar veifur. Þá hafa mávarnir verpt á þökum húsa en margir húseigendur veigra sér við því að hafa samband við meindýraeyði til þess að láta farga ungunum,” segir hún, en ágangur sílamávsins eykst verulega í kringum varptímann og hyggst Garðabær bjóða íbúum á fræðslufund í Sjálandsskóla miðvikudaginn 12. apríl kl. 17:00 þar sem Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur verður með fræðsluerindi.

Að loknu fræðsluerindi svara Arnór og Magni Þór Konráðsson, meindýraeyðir spurningum íbúa um hvað sé til ráða.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar