Lokakafli Íslandsmótsins, sem fram fór á Hólmsvelli í Leiru í gær, var æsispennandi. Hulda Clara Gestsdóttir og Aron Snær Júlíusson eru Íslandsmeistarar í golfi 2024 en þau eru bæði í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Það vill svo skemmtilega til að þetta er í annað sinn sem þau fagna þessum titli saman, en þau sigruðu bæði í fyrsta sinn árið 2021.
Aron Snær lék á 270 höggum eða 14 höggum undir pari vallar, Aron Emil Gunnarsson, GOS, varð annar á 12 höggum undir pari, jafnir í þriðja sæti voru Böðvar Bragi Pálsson, GR og Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, á 9 höggum undir pari. Skorið í karlaflokki var mjög gott en alls léku 15 kylfingar samtals undir pari vallar.
Mótsmet og vallarmet slegið af Aroni og Gunnlaugi
Aron Snær lék á 14 höggum undir pari vallar sem er nýtt mótsmet, en metið var í eigu Bjarka Péturssonar, GKG, frá árinu 2020 á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Þá setti Gunnlaugur Árni Sveinsson í GKG nýtt vallarmet á þriðja degi er hann lék hringinn á 63 höggum, 8 höggum undir pari vallar sem var 64 högg, sett deginum áður af Böðvari Braga Pálssyni úr GR.
Hulda Clara lék á 289 höggum eða 5 höggum yfir pari vallar, Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, var á einu höggi á eftir, og Andrea Björg Bergsdóttir, GKG, varð þriðja á +8.
Hulda Clara fékk Guðfinnubikarinn, sem var veittur í fyrsta sinn, þeim áhugakylfingi sem leikur á besta skorinu í kvennaflokki.
GKG kylfingar áberandi á Íslandsmótinu
Kylfingar úr GKG voru áberandi á Íslandsmótinu í Leiru en tvær af þremur efstu í kvennaflokki eru í GKG, þær Hulda Clara og Andrea Björg Bergsdóttir sem varð þriðja og Eva Fanney Matthíasdóttir enda í 12. sæti. Í karlaflokki átti GKG samtals sex kylfinga á topp 15 listanum og allir léku þeir undir pari vallarins. Aron Snær varð Íslandsmeistari, Sigurður Arnar í þriðja sæti, Gunnlaugur Árni varð í 5. stæti, Hlynur Bergsson í 11. sæti og Ragnar Már Garðarsson og Kristófer Orri Þórðarson deildu 13. sætinu.
Glæsilegur árangur hjá kylfingum úr GKG sem komu heim með Íslandsmeistaratitlana í karla- og kvennaflokki, slógu mótsmetið og bættu vallarmetið í karlaflokki.
Forsíðumynd: Hulda Clara Gestsdóttir og Aron Snær Júlíusson. Mynd/[email protected]