Hugum að uppbyggingu enn betri Garðabæjar

Þegar ég hóf störf við sölu fasteigna var mér tjáð að fasteignir myndu aldrei lækka í verði, slík fjárfesting væri örugg. Nú hef ég starfað sem fasteignasali í 26 ár og tel mig hafa kynnst markaðnum nokkuð vel og þeim sveiflum sem honum fylgir. Í hruninu reyndist erfitt að horfa á fasteignaverð verða að engu. Nú horfir þetta öðruvísi við en íbúðaverð hefur rokið upp úr öllu valdi. Verðið getur verið svo breytilegt að eignir eru að hækka umtalsvert á milli mánaða, þetta er jafn óeðlilegt og þegar fasteignaverð hrundi. Af hverju stafar þetta? Margir kenna lóðaskorti um og því útspili að selja lóðir hæstbjóðendum. Eftirspurn er mikil og framboð ekki nóg, eðli málsins samkvæmt skapar það þrýsting á húsnæðismarkaði sem endurspeglast í hækkun íbúðaverðs. Þetta gerir fyrstu kaupendum sérstaklega erfitt fyrir.

Ábyrgð sveitafélaga

En það er hægt að sporna við fótum og er ábyrgð sveitafélaga mikil. Það verður að vanda vel til verka þegar lóðum er ráðstafað og taka til skoðunar að bjóða lóðir á föstu verði til einstaklinga. Það gefur fólki frekari kost á að byggja sér húsnæði. Nú sjáum við fram á mikla uppbyggingu í Garðabæ, stöndum rétt að þeim framkvæmdum. Tryggja verður að í boði sé fjölbreytt húsnæði, sem mætir þörfum íbúa á mismunandi æviskeiðum. Hafa þarf unga fólkið sérstaklega í huga, hjálpum þeim að koma þaki yfir höfuðið og höldum þeim í Garðabæ.

Bætt starfsumhverfi í leikskólum bæjarins

Þegar mikil uppbygging er í bænum og fólksfjöldi eykst, verður að mæta þeirri manneklu sem á sér stað í leikskólum landsins. Stefna Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ er að tryggja börnum, 12 mánaða, pláss í leikskólum bæjarins. Til að hægt sé að fylgja þessu eftir, þarf að styrkja innra starf og bæta starfsumhverfi. Skapa þarf aðlaðandi starfsaðstæður, ýta undir verðskuldaða virðingu starfsins, minnka álag og auka sveigjanleika. Miklir hagsmunir liggja í því að rétt sé staðið að málum svo bærinn laði til sín hæfasta starfsfólkið hverju sinni, starfsfólk sem er ánægt í starfi þannig að bærinn geti áfram veitt góða þjónustu til yngsta aldurshópsins og foreldra þeirra.

Blómstrandi mannlíf og þjónusta

Verslun og þjónusta í Garðabær hefur vaxið mikið og verður sífellt meira spennandi. Höldum áfram þessari uppbyggingu og eflum bæjarbraginn enn frekar. Styrkjum bæjarsamfélagið og höldum áfram að draga að okkur fólk og fyrirtæki. Ráðumst í áframhaldandi uppbyggingu Garðatorgs og sköpum aðlaðandi miðbæ þar sem öflug miðstöð þjónustu og mannlífs fær að blómstra.

Sveinbjörn Halldórsson, sækist eftir 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar