Hrannar Bragi Eyjólfsson

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver ert þú og hvaða sæti sækist þú eftir?

Ég heiti Hrannar Bragi Eyjólfsson og ég sækist eftir 4.-5. sæti í prófkjörinu. Ég er 26 ára lögfræðingur og starfa hjá Almenna lífeyrissjóðnum. Fjölskyldan mín á að baki langa sögu í bænum, eða allt frá því að langafi minn fluttist hingað 1955. Síðan bættust amma mín og afi, séra Bragi Friðriksson og Katrín Eyjólfsdóttir, við árið 1958 og bjuggu þau hér æ síðan. Ég hef búið í Garðabæ alla mína tíð og gengið hér í gegnum leik-, grunn- og framhaldsskóla. Ég hef æft íþróttir með Stjörnunni frá því að ég man eftir mér og spila í dag handbolta með félaginu í úrvalsdeild karla.

Ég hef tekið þátt í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins og setið m.a. í stjórn Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ og í SUS. Ég var á lista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ í síðustu sveitarstjórnarkosningum og hef setið í menningar- og safnanefnd bæjarins síðastliðin fjögur ár.

Af hverju býður þú þig fram?

Garðabær stendur mér mjög nærri og ég hef brennandi áhuga á bæjarmálum í víðum skilningi. Seta mín í menningar- og safnanefnd hefur aukið löngun mína til að taka frekari þátt í bæjarmálum og ég vil leggja mitt af mörkum til að gera Garðabæ – þennan góða bæ – enn betri. Mér finnst mikilvægt að unga fólkið fái rödd í bæjarmálunum.

Hverjar eru þínar helstu áherslur?

Ég hef einkum lagt áherslu á þrjú málefni:

  1. Að áfram verði lögð áhersla á að tryggja börnum pláss á leikskólum bæjarins við 12 mánaða aldur nærri heimilum sínum. Í nýjum hverfum er mikilvægt að huga að og byggja innviðina fyrst svo að við séum tilbúin að mæta íbúunum og þörfum þeirra.
  2. Öryggi í samgöngum verði aukið – t.d. með undirgöngum eða göngubrú frá Urriðaholti, yfir Reykjanesbraut og í eldri hverfi bæjarins.
  3. Að skipulögð verði blönduð byggð í bænum – bæði fyrir fyrstu kaupendur og eldra fólk sem vill minnka við sig. Höldum Garðbæingum í Garðabæ.

Þessu verður ekki náð í gegn án áframhaldandi festu í fjármálum. Traustur fjárhagur er ætíð forsenda framþróunar. Ég vona að sjálfstæðisfólk treysti mér til ábyrgðarstarfa fyrir flokkinn og bæinn minn.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar