Hrafnhildur gerir hverja kennslustund að ævintýri

Hrafnhildur Sigurðardóttir, kennari við Sjálandsskóla í Garðabæ er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2024 í flokknum Framúrskarandi kennari, en þrír aðrir kennarar eru tilnefndir ásamt henni.

Verðlaunin eru veitt árlega sem viðurkenning fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum, en alls eru veitt verðlaun í fimm flokkum.

Hrafnhildur er áhugasöm, jákvæð og
lausnamiðuð og mikill fagmaður sem brennur fyrir starfið sitt og sinnir því að einstakri alúð

Hrafnhildur er tilnefnd fyrir þróun fjölbreyttrar og hugmyndaríkrar útikennslu, fjölbreyttar valgreinar og leiðsögn við kennara og kennaraefni um útivist og umhverfismennt.

Markmið verðlaunanna þeirra er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

Hér má lesa tilnefninguna í heild sinni:

Hrafnhildur Sigurðardóttir lauk kennaraprófi frá Háskóla Íslands 2006. Hún hefur starfað við Sjálandsskóla frá því að skólinn tók til starfa árið 2005, lengst af við umsjónarkennslu en er nú verkefnastjóri á yngsta stigi og útikennslu nemenda í 1.–7. bekk. Hrafnhildi er lýst sem einstökum kennara, hún sé áhugasöm, jákvæð og lausnamiðuð og mikill fagmaður sem brennur fyrir starfið sitt og sinnir því að einstakri alúð svo eftir er tekið í skólasamfélaginu. Hún er óhrædd við að feta óhefðbundnar slóðir í kennslunni og smitar aðra með áhuga sínum. Hún þykir ekki eingöngu framúrskarandi kennari heldur einnig einstakur leiðtogi.

Útikennsla hefur verið mikilvægur þáttur í skólastarfi Sjálandsskóla þar sem allir nemendur i 1.–7. bekk fara út einu sinni í viku, að lágmarki áttatíu mínútur, allan veturinn. Viðfangsefni útikennslunnar eru allar námsgreinar og hefur Hrafnhildur lag á því að samþætta námsgreinar og tengja við útinám. Á unglingastigi kennir Hraf-nhildur valgreinar eins og hellaval, fjallgöngur, fjallahjól og kajak.

Starfsfólk Sjálandsskóla leitar til Hrafnhildar eftir hugmyndum og aðstoð við skipulagningu náms. Hún hefur komið að kennslu á námskeiðum á Menntavísindasviði Háskóla Íslands um útikennslu og þjálfun kennaranema á því sviði. Kennaranemar koma reglulega til hennar, auk þess sem gestir frá útlöndum sækjast eftir því að koma að kynna sér útikennsluna og hvernig hún nálgast hana. Jafnframt hefur hún tekið þátt í Háskóla unga fólksins, einnig um útikennslu.

Hrafnhildur hefur lag á því að samþætta námsgreinar og tengja við útinám

Dæmi um umsagnir sem fylgdu tillögum um tilnefningu Hrafnhildar:
,,Hrafnhildur gerir hverja kennslustund að ævintýri, hvort sem um er að ræða hefðbundin námstengd verkefni eða í fjörunni, á kajak, í fjallgöngu eða í útieldun. Ósjaldan má sjá nemendur Sjálandsskóla setja upp tjöld í nágrenninu, hjóla upp í Heið-mörk eða skoða lífríkið í flæðamálinu.”

,,Nemendur sem af einhverjum ástæðum hafa átt erfitt uppdráttar í skólanum hafa notið aðstoðar Hrafnhildar. Hún hefur einstakt lag á því að nálgast nemendur, styrkja þá félagslega og bæta líðan. Hrafnhildur er hrein og bein og nemendur vita hvar þeir hafa hana og að hún stendur alltaf með þeim. Þeir vita líka að ef þeir ruglast þá tekur Hrafnhildur vel á móti þeim og leiðbeinir og hvetur til dáða án þess að dæma eða brjóta niður.”

Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn 5. nóvember á Bessastöðum. Sýnt verður frá athöfninni þann sjötta á RÚV.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar