Grunnskólar Garðabæjar verða settir fimmtudaginn 22. ágúst næstkomandi en alls verða um 2650 börn í grunnskóla Garðabæjar. Skólabyrjun er spennandi, eftirvænting og óöryggi geta kallast á í hugum nemenda. Við búum svo vel að eiga sterka, framsækna og öfluga grunnskóla sem halda vel utan um nemendahópinn okkar. Bærinn fer stækkandi og skólasamfélagið líka. Þar bjóðast spennandi tækifæri fyrir kennara, leiðbeinendur, skólaliða og starfsfólk frístundaheimila.
Virðum starf kennarans
Í Garðabæ er öflugt skólasamfélag sem einkennist af fagmennsku og metnaði. Skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skapa þetta umhverfi og gera það vel. Við þurfum áfram að standa vörð um skólana okkar og efla starf þeirra enn frekar. Gætum þess að virða starf kennarans, hrósa fyrir það sem vel er gert og tala ætíð af virðingu um skólann og kennara við barnið. Hrós kostar ekkert en skilar oft miklu. Ræðum beint við kennara eða stjórnendur skólans um það sem hugsanlega má betur fara. Rödd foreldra skiptir máli og sterk tengsl foreldra við skóla barnsins eru afar mikilvæg.
Hagsmunir barnsins
Skólinn er vinnustaður barnsins, öll uppvaxtarárin frá bernsku og fram á unglingsár. Við þekkjum vel hve mikilvægt það er að líða vel í vinnunni, hlakka til að koma þangað að morgni. Það sama gildir um barnið. Það er afar brýnt að því líði vel í skólanum, það njóti sín og gangi til skóla af gleði að morgni. Á sama hátt og við förum yfir skólabúnaðinn í töskunni þurfum við að gæta vel að því hvað tryggir vellíðan barnsins í skólanum. Spyrjum barnið og sýnum líðan þess áhuga, stöndum vörð um hagsmuni og möguleika þess til þroska og vellíðunar.
Skólahúsnæði
Á síðastliðnum tveimur árum hafa verið gerðar miklar endurbætur á skólahúsnæði bæjarins sem nú sér fyrir endan á. Í Flataskóla, Hofsstaðaskóla og Álftanesskóla hefur margt verið endurnýjað og loftgæði stórbætt. Í Garðaskóla er enn unnið að endurbótum í góðu samstarfi við skólasamfélagið. Þar verða áfram framkvæmdir í vetur sem raska þó ekki skólastarfi. Nýjasti skólinn, Urriðaholtsskóli, heldur áfram að vaxa og dafna með stækkandi hverfi. Annar áfangi skólans var tekinn í notkun í vetur og framkvæmdir við þann þriðja eru þegar hafnar.
Samskiptasáttmáli Garðabæjar
Í vetur hefja skólarnir innleiðingu á Samskiptasáttmála Garðabæjar. Megin markmið sáttmálans er að þjálfa börn í góðum samskiptum, auka öryggi og vellíðan í námi og leik ásamt því að takast á við ágreining. Samskiptasáttmálinn byggir á markvissri þjálfun allra nemenda í góðum samskiptum. Leiðarljós samskiptasáttmála Garðabæjar er að auka vellíðan, velferð, lífsgæði og heilsu barna.
Með þessu er á markvissan hátt stuðlað að jákvæðum samskiptum og aukinni þekkingu barna, forráðafólks og starfsfólks á einkennum samskiptavanda og eineltis. Með aukinni þekkingu og markvissri þjálfun eiga hlutaðeigendur að geta brugðist við, vita hvert skal leita og hvernig er unnið úr málum.
Nemendastýrð foreldraviðtöl
Þá verður í vetur og þann næsta haldið áfram með innleiðingu og fræðslu um nemendastýrð foreldraviðtöl sem hafa gengið mjög vel og nemendur hafa tekið þátt í af krafti. Markmið nemendastýrðra foreldraviðtala er meðal annars að virkja nemendur enn betur varðandi eigin markmiðssetningu í námi, mat á stöðu og framtíðarsýn.
Fræðsla
Kennarar fá fræðslu um ofbeldi og hegðunarvanda og hinsegin fræðsla býðst starfsfólki og nemendum. Þá munu umsjónarmenn frístundaheimilanna fara á námskeið sem styrkir þá í starfi sínu á frístundaheimilunum.
Þróunarverkefni skólanna
Í Garðabæ búum við svo vel að hafa metnaðarfullan þróunarsjóð sem styrkir starfsfólk skólanna, en í vetur fara 10 ný þróunarverkefna af stað í grunnskólum Garðabæjar til viðbótar við þau sem eru þegar í gangi. Þar má sem dæmi nefna; Lærdómsferðir í Flataskóla, Velferðarkennslu í Álftanesskóla, verkefni tengt móttöku nemenda með erlendan uppruna í Urriðaholtsskóla, Lifandi dýr í Sjálandsskóla og fleira. Í verkefninu Betri Garðabær hlaut verkefni sem snýr að næðisrýmum fyrir nemendur einnig brautargengi og mun innleiðing á því hefjast í vetur.
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir
Síðast en ekki síst má nefna að skólamáltíðir verða gjaldfrjálsar frá og með haustinu. Forráðafólk þarf að skrái börn sín eftir sem áður í mataráskrift. Verði mataráskrift barns nýtt minna en 50% í mánuði, þá fellur áskrift barnsins sjálfkrafa niður næsta mánuð á eftir til að stemma stigu við matarsóun. Forráðamenn barnsins bera þá ábyrgð á að skrá barnið í mataráskrift að nýju vilji þeir nýta hana.
Stuðningur við skólabarnið
Einn besti stuðningur sem hægt er að sýna barni er einlægur áhugi, kærleikur og heilbrigð mörk í uppeldi. Spyrja, gefa sér tíma, ræða málin, horfa í augun og hlusta. Læsi er einn af grunnþáttum menntunar en til að börn nái tökum á lestri þurfa þau mikla æfingu heima og í skólanum. Heimanám þarf að vera hluti af heimilislífinu, það tekur tíma og orku og þarf því að komast inn í skipulagið. Hvenær, hvar og með hverjum? Þetta þarf að ræða og skipuleggja. Streita í kringum heimanám á síðustu stundu er slæm upplifun sem þarf að vera undantekning en ekki reglan. Þá er vert að hafa í huga að mikil notkun snjallsíma og tölvu vinnur gegn vellíðan, hvíld og einbeitingu.
Skólabyrjun er tækifæri og áskorun. Styðjum vel við börnin okkar, á heimilinu sem foreldrar og ættingjar, í skólunum sem fagmenn og umsjónaraðilar og í tómstundunum sem þjálfarar og ábyrgðaraðilar. Garðabær er bær þar sem bæjarbúar láta sér annt hver um annan – látum okkur einkum annt um unga fólkið okkar sem þarf stuðning og jákvæða athygli.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar grunnskóla