Hönnuður Bleiku slaufunnar eru Lovísa og Unnur

Sl. föstudag hófst árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Í Bleiku slaufunni í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að mikilvægi samstöðunnar og bleika litarins sem tákns um hana.

916 konur greinast með krabbamein á ári

Krabbameinsgreiningu hefur verið líkt við að steini sé kastað í vatn, sem gárast í kjölfarið. Gárurnar tákna alla þá sem standa hinum krabbameinsgreinda nærri og verða ekki síður fyrir áhrifum af veikindunum. Fyrir þá sem ganga í gegnum það að greinast með krabbamein og nánustu aðstandendur þeirra getur það að upplifa umhyggju og stuðning hjálpað meira en okkur grunar. Að meðaltali greinast 916 konur með krabbamein á ári og þótt fimm ára lífshorfur fari stöðugt batnandi og dánartíðni lækkandi, látast að meðaltali 303 konur á ári hverju. Í október eiga þessar konur sviðið og við hin höfum tækifæri til að láta okkur málið varða.

Krabbamein kvenna snertir okkur öll ein-hvern tímann á lífsleiðinni og við getum öll lagt okkar af mörkum í baráttunni.

Hjarta Bleiku slaufunnar í ár er slagorðið Verum bleik – fyrir okkur öll. Með því að klæða samfélagið í bleikan búning í október sýnum við samstöðu í verki með málstaðnum. Þessi sýnilega samstaða flytur fjöll og getur breytt öllu fyrir þau sem glíma við krabbamein og aðstandendur þeirra.

Hönnun slaufunnar

Hönnuðir slaufunnar í ár eru gullsmíðameistararnir Lovísa Halldórsdóttir Olesen (by lovisa) og Unnur Eir Björns- dóttir (EIR eftir Unni Eir). Hönnun slaufunnar er innblásin af samstöðu og minnir okkur á að þótt við séum öll ólík þá stöndum við saman þegar erfiðleikar steðja að. Steinarnir í slaufunni eru ólíkir að forminu til og tákna þannig margbreytileika okkar og heild þeirra táknar þéttan stuðning samfélagsins. Sterkur bleikur litur einkennir slaufuna í ár, en hann minnir á samstöðuna sem er fólgin í því þegar samfélagið skrýðist bleikum búning til að styðja við baráttuna gegn krabbameinum hjá konum.

Lovísa býr í Garðabæ og rekur skartgripverslunina by lovisa í Vinastræti 16 í Urriðaholti í Garðabæ. Garðapóst- urinn heyrði í henni hljóðið og spurði m.a. hversu langan tíma tók að skapa þennan fallega skartgrip? ,,Ég og vinkona mín, Unnur Eir gullsmiður, byrjuðum hönnunarferlið fyrir sirka 10 mánuðum. Við vorum með nokkuð skýra sýn en við vildum gera vel bleika slaufu og ákváðum að ná því með steinum,” segir hún og bætir við: ,,Það líka á vel við í átakinu núna “Verum bleik fyrir okkur öll.”

Góð pressa

Var þetta öðruvísi vinna þar sem þetta er til styrktar góðu málefni – skemmtilegt verkefni og jafnvel meiri pressa? ,,Það er alltaf öðruvísi að stíga úr sínum heimi ef svo að orði mætti komast og líka gaman að vinna að svona stóru verkefni með góðri vinkonu. Við vinnum vel saman og þetta small fjótt hjá okkur,” segir hún og heldur áfram: ,,Já, það er pressa að að vinna slaufuna, en góð pressa. Maður vill standa sig og gera sitt allra besta við að gera slaufu sem að fólki líkar vel við, sem við svo sannarlega gerðum.”

Og þetta er bæði næla og hálsmenn? ,,Slaufurnar eru tvær, þessi sem er seld víða og svo sparislaufa sem er viðhafnarútgáfa og kemur í takmörkuðu upplagi. Sparislaufan er hálsmen úr gullhúðuðu silfri en hefðbundna Slaufan er næla.”

Heiður að fá að taka þátt í verkefninu

Og er ekki mikill heiður að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu – að vera boðið að hanna Bleiku slaufuna í ár? ,,Ég er mjög þakklát og það er heiður að fá að taka þátt í verkefninu með Krabbameinsfélaginu. Þetta er málefni sem snertir okkur öll á einhvern hátt,” segir Lovísa að lokum en hún og Unnur hönnuðu einnig Bleiku slaufuna árið 2016.

Bleika slaufan 2023 kostar 3.500 krónur og verður í sölu frá 29. september til 23. október í verslun og vefverslun Krabbameinsfélagsins, í Mebu skartgripaverslun í Kringlunni og Smáralind, í verslun by lovisa að Vinastræti 16 í Garðabæ og hjá hátt í 400 söluaðilum um land allt. Viðhafnarútgáfan er seld hjá Krabbameinsfélaginu, bylovisa og Meba.

Auglýsing herferðarinnar

Birna Schram, leikstjóri auglýsingarinnar, tók svo við keflinu og skapaði hugarheim sem túlkar inntak átaksins með einstökum hætti. Birna missti móður sína úr krabbameini í fyrra og segir að verkefnið sé henni því afar kært og í raun innblásið af þeirri reynslu. Auglýsingin er með bleikum ljóma og sýnir máttinn í samstöðunni.

Bleiki dagurinn 20. október

Bleiki dagurinn er hápunktur Bleiku slaufunnar og hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár. Á Bleika deg- inum í ár hvetjum við landsmenn til að vera bleik fyrir okkur öll og stefnum auðvitað að því að Bleiki dagurinn í ár verði sá allra bleikasti hingað til, í takt við átakið. Bleiki dagurinn verður haldinn föstudaginn 20. október og við hlökkum til að lýsa skammdegið upp með bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni samstöðuna í samfélaginu.

Ómetanlegur stuðningur

Krabbameinsfélagið leggur sitt af mörkum með öflugu forvarnar- og fræðslustarfi, þýðingarmiklu framlagi til krabbameinsrannsókna, hagsmunagæslu og endurgjaldslausum stuðningi og ráðgjöf til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Fjárhagslegur stuðningur einstaklinga og fyrirtækja við átak á borð við Bleiku slaufuna er því ómetanlegt framlag í baráttunni við krabbamein og undirstaða þess að félagið geti áfram sinnt þessum mikilvægu verkefnum. Krabbameinsfélagið þakkar Velunnurum félag ins og öllum þeim sem kaupa og bera Bleiku slaufuna um land allt af alhug fyrir stuðninginn. Verum bleik – fyrir okkur öll.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar