Hestamenn ósáttir við fyrirhugaða skerðingu á reiðstígum

Hestmannafélagið Sprettur, stjórn og reiðveganefnd, hefur hvatt Garðabæ að sjá til þessa að við breytingar á stígakerfi í upplöndum Garðabæjar komi ný reiðvegatenging, þ.e. frá reiðstíg um Vífilsstaðahlíð að reiðstígum Hestmannafélagsins Sörla í Gráhelluhrauni, u.þ.b. 2,3 km, verði færð inn á deiliskipulagstillögur fyrir útivistarsvæði í Urriðavatnsdölum. Félagið bendir á að um sé að ræða u.þ.b. 4km styttingu á reiðleið milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar út frá fyrirhugðuðum breytingum.

,,Hestamannafélagið Sprettur bendir á að samkvæmt fyrirhuguðum breytingum á stígakerfi í upplandi Garðabæjar er verið að afleggja u.þ.b. 6,5 km af reiðstígum, eða taka þá til annarra nota. Í þess stað er lagt til að komi nýr reiðstígur úr Grunnuvatnaskarði austan við Ljósakollulág í Vífilsstaðahlíð, um 1,9km að lengd,” segir í erindi sem félagið hefur sent á Garðabæ.

,,Í boðuðum skipulagsbreytingum á stígakerfi í upplöndum er ætluð skerðing á reiðstígum sem nemur 4,6km. Það er rýrnun á útivistarmöguleikum hestamanna sem er með öllu óásættanleg og þeim áformum mótmælt harðlega. Bent skal á að hestamenn hafa með sjálfboðavinnu og stuðningi opinberra aðila einkum Vegagerðarinnr byggt um þá reiðstíga sem fyrirhugað er að afleggja eða til annarra nota í skipulagstillögum,” segir í erindinu og tekið er fram að um viðbótarskerðingu sé að ræða á reiðvegakerfi á svæðinu, en áratugagömul reiðleið milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar var aflögð fyrir nokkrum árum vegna nýrra byggingaframkvæmda í Urriðaholti.

Ekkert rætt við hestamenn um bætur

,,Ekkert hefur verið rætt við hestamenn um bætur vegna þeirra reiðstíga sem teknir hafa verið eða fyrirhugað er að taka til annarra nota né heldur um fjármögnum reiðstígs um Ljósakollulág í Vífilsstaðahlíð,” segir í erindinu þar sem óskað er eftir að Garðabæ tilnefni fulltrúa frá Spretti í viðræðuhóp með það að markmiði að finna ásættanlega lausn.

Fækka reiðleiðum en mikil stækkun hesthúsahverfið á Kjóavöllum framundan

Þá vill Hestamannafélagið Sprettur benda á að á sama tíma og Garðabær boðar skerðingar á reiðstígakerfi í upplöndum sveitarfélagsins og þá er verið að undirbúa mikla stækkun hesthúsahverfis á Kjóavöllum. ,,Er þar um að ræða nær tvöföldun á hesthúsaplássum í Garðabæ, em leiðir af sér um helmingi fleiri hross á svæðinu. Félagið telur það illa fara saman að fækka reiðstígum við þessar aðstæður. Hestamannafélagið Sprettur telur það auðsýnt að við slíkar aðstæður þarf að fjölga reiðstígum en ekki fækka auk þess sem nauðsynlegt er að huga að uppbyggingu annarra innviða sem er nauðsynlegir eru í hesthúsahverfum.”

Gatnagerð stendur nú yfir við nýtt hesthúsahverfi á Kjóavöllum

Hægt að bæta upp að einhverju leyti

,,Með því að leggja þá reiðleið sem hestamenn leggja til ,,Seljarhlíðarleið” sem er u.þ.b. 2,3km, væri Garðabæ að bæta hestamönnum að einhverju leyti upp þá 6,5km af reiðstígum sem teknir verða til annarra nota í fyrirhuguðum skipulagsbreytingum á stígakerfinu,” segir í erindinu en þar er einkum átt við reiðveg frá Smalaholti að Setbergslæk, eða reiðveg samhliða Elliðavatnsvegi (Flóttamannaleið) sem hefur verið aðalreiðleið (stofnleið) milli hesthúsahverfa Sörla og Spretts (Andavara/Gusts) í áratugi.

Uppráttur með tillögu að Seljarhlíðarleið

Hvetja Garðabæ til að ná samningum við eigendur Setbergslands

,,Varðandi reiðleiðleiðatengingu úr Vífilsstaðahlíð að Gráhellu í Hafnarfirði þá liggur fyrir að fulltrúar landeigandans, Líknarsjóð Oddfellowa, hafa í viðræðum við Sprett tekið vel í legu reiðstígs á þessum slóðum. Þá bendir Sprettur á að lega þessa reiðvegar sem gerð er tillaga um liggur að takmörkuðu leyti um land Setbergs jarðarinnar og veldur óverulegri ef nokkurri röskun á því landi,” segir í erindinu, en félagið hvetur Garðabæ til að ná samningi við eigendur Setbergslands um þessa staðsetningu reiðleiðar.

Reiðvegir geta nýst sem varnarlínur

,,Hestamannafélagið Sprettur bendir á í ljósi ört vaxandi skógræktar og viðgangs annars gróðurs m.a. í upplöndum Garðabæjar hefur það sýnt sig að nauðsynlegt er að hafa vegi eða slóða sem auðvelda slökkviliði að komast að sinu- eða skógareldi. Auk þess geta reiðvegir nýst sem varnarlínur sem setja landsvæði í einskonar brunahólf. Þá getur auðveldara að-gengi varðar miklu fyrir viðbragðsaðila þegar slys ber að höndum eins og því miður kemur oft fyrir í tengslum við úti- vist ýmis konar,” segir í lok erendis, en Sprettur óskar eftir því að bæjarfélagið bregðist við á þann hátt að veita félaginu möguleika á að eiga aðild að vinnu við lausn þeirra mála sem að framan er lýst.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar