Heimili í pappakassa – fjölskyldusmiðja í Hönnunarsafni

Sunnudaginn 7. nóvember frá klukkan 13 verður fjölskyldum boðið að taka þátt í forvitnilegri smiðju þar sem heimili í pappakassa verða búin til. Þjóðfræðingurinn Dagrún Jónsdóttir og Ásgerður Heimisdóttir hönnuður leiða smiðjuna. Allir geta föndrað heimili út frá hugmyndum um hvað var kósí á landnámsöld og hvað okkur í dag finnst vera notalegt og fallegt. Er langeldur ef til vill málið og væri kannski hægt að útfæra langeld á nútímaheimili? Er eldhúsborðið eða sjónvarpssófinn staðurinn sem þú og þín fjölskylda verjið gæðatíma saman og hvað er gert þegar fjölskyldan á saman kósístund? Tímarit, pappír, lím og skæri verða á staðnum en gott er ef fólk tekur skókassa með. Ýmsir fróðleiksmolar frá þjóðfræðingnum Dagrúnu og hönnunarábendingar frá Ásgerði munu án efa gera smiðjuna skemmtilega og áhugaverða fyrir framtíðarhönnuði landsins og þeirra foreldra! Smiðjan er ókeypis og allir velkomnir en smiðjan er styrkt af Barnamenningarsjóði.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar