Heiðruðu 95 ára félaga í púttklúbbnum

Tveir félagar á Álftanesi ákváðu fyrir tæpum fjórum árum að stofna púttklúbb til að hrista upp í skammdeginu, en elsti félaginn í klúbbnum er Stefán Vilhelmsson og var hann heiðraður ef klúbbfélögum á dögunum.

Þeir fengu inni hjá Golfklúbbnum Keili og hafa verið þar í góðu yfirlæti. ,,Þar ræður afskaplega gott fólk sem allt vill fyrir okkur gera. Nú komum við saman alla föstudaga klukkan eitt og púttum saman. Að staðaldri mæta tíu til fimmtán manns og er þetta okkur verulega góð skemmtun og tilbreyting. Með okkur frá upphafi er starfsfélagi okkar, Stefán Vilhelmsson, flugvélstjóri, sem hefur flogið með okkur til margra ára, en við Magnús vorum báðir flugmenn hjá Loftleiðum,” segir Gunndór Ísdal einn meðlima púttklúbbsins þegar Garðapósturinn náði í hann.

Magnaður Stefán

Stefán er fæddur árið 1927 og er því níutíu og fimm ára. ,,Hann hóf störf hjá Icelandair 1947. Hann er ótrúlega ern en hann var mikill íþróttamaður á fyrri árum, stundaði skíði, tennis og fimleika. Það má ekki koma snjókorn á jörð, þá er Stefán kominn á gönguskíðin. Hann hjólar um allar koppagrundir og gengur með okkur í gönguhóp. Hann syngur tenór í kórnum okkar og sleppir ekki æfingu. Hann keyrir sinn bíl dagsdaglega,” segir hann.

Stefán er Garðbæingur í húð og hár og búinn að vera búsettur í Garðabæ síðan 1967.

,,Þessar myndir af okkur púttfélögunum er ætlað að heiðra þennan öðling með þakklæti fyrir að vera til,” segir Gunndór.

Nokkra vantaði á æfingu pútthópsins þegar Garðapósturinn mætti í heimsókn sl. föstudag, en Stefán er annar frá hægri

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar