Ég hef aðallega verið tuðandi í heita pottinum

Lárus Guðmundsson, framkvæmdastjóri Margmiðlunar ehf, leiðir lista Miðflokksins í Garðabæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, en Lárus er sjálfsagt mörgum að góðu kunnur enda fyrirverandi atvinnu- og landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu auk þess sem hann lék með Stjörnunni og þjálfaði á sínum tíma. Þá stofnaði hann KFG og þjálfaði um langt árabil.

Og svona til að byrja með fyrir bæjarbúa, hver er Lárus Guðmundsson? ,,Lárus er fyrst og fremst fjölskyldumaður. Giftur Ásgerði Baldursdóttur, tveggja barna faðir, Linda Björk Lárusdóttir og Guðmundur Lárusson. Svo er ég svo lánssamur að vera stoltur 4 barna afi,” segir hann og bætir við: ,,Ég er að sjálfsögðu mikill áhugamaður um íþróttir og útivist, en einnig mjög áhugasamur um nærsamfélagið og hvernig við bætum það.”

En hvernig kom það til að þú ákvaðst að þiggja oddvitasætið á lista Miðflokksins í Garðabæ? ,,Það kom þannig til að Miðflokkurinn setti sig í samband við mig og óskaði eftir því að ég tæki að mér oddvitasæti listans í Garðabæ og myndi leiða lista flokksins í komandi sveitastjórnakosningum. Eftir að hafa setið fund með Sigmundi og nánu samstarfsfólki hans í Garðabæ þá ákvað ég að hoppa um borð. Enda ríma hin fjölskyduvænu stefnumál Miðflokksins, vel við mínar hugsjónir og gildi.”

Alltaf tengt vel við þeirra hugmyndafræði

Og af hverju varð Miðflokkurinn fyrir valinu, hefur þú stutt þann flokk í gegnum árin? ,,Nei, get ekki sagt það, en hef alltaf tengt nokkuð vel við þeirra hugmyndafræði, þó ekki sammála öllu. Finnst Sigmundur hafa gert góða hluti í íslenskri pólitík og staðið fastur á sínu. Mjög vanmetinn fyrir sitt framlag til þjóðarinnar. Nú fæ ég hins vegar tækifæri til að móta stefnu flokksins í Garðabæ og koma mínum hugðarefnum á framfæri.”

Hvað með pólitíkina sjálfa, hefur hún lengi blundað í þér, hvaðan kemur áhuginn? ,,Hef aðallega verið tuðandi í heita pottinum í Ásgarðslaug, sem ég hangi í löngum stundum og mínu nær umhverfi, en alltaf verið með sterkar skoðanir á málum.”

Hafa ekki sinnt þeim sem minna mega sín

Þú hefur verið lengi búsettur í Garðabæ, ertu ósattur með hvernig bærinn hefur verið rekinn? ,,Alls ekki, Sjálfstæðisflokkurinn, þar sem ég á marga góða vini og kunningja, hefur staðið sig nokkuð vel. Og skapað gott umhverfi fyrir bæjarbúa, sérstaklega í íþróttamálum og fjármálum Garðabæjar.
En þeir hafa ekki sinnt að mínu mati, þeim sem minna mega sín, og þar ætla ég ásamt mínum flokki að standa vaktina. Halda þeim við efnið og tryggja að rödd þeirra sem minna mega sín, verði virt.”

Mun hlusta og heyra hvað bæjarbúar hafa til málanna að leggja

Það eru ekki nema rétt rúmur mánuður í kosningar, hverjar verða helstu áherslur Miðflokksins í Garðabæ fyrir kom-andi kosningar? ,,Ef ég næ kjöri, mun ég hlusta og heyra hvað bæjarbúar hafa til málanna að leggja. Ég mun leggja aðal áherslu á fjölskyldumálin og þá á ég við börnin, foreldrana og afann og ömmuna. Ég held að það sé hægt að gera miklu betur í leikskólamálum, málefnum fatlaðra og öldrunarmálum. Þett er ekki kosninga klisja, heldur þekki ég á eigin skinni þessa málaflokka. Ef ég næ kjöri, þá mun ég láta í mér heyra svo um munar um þessi mál og önnur baráttumál Miðflokksins í Garðabæ.”

Við erum í þessum slag til að hafa áhrif

Nú munaði ekki nema örfáum atkvæðum að Miðflokkurinn næði inn bæjarfulltrúa í Garðabær í kosningunum 2018. Stefnan sjálfsagt að ná inn manni og gott betur en það? ,,Okkur upplegg í kosn-ingabaráttuna, verður fyrst og fremst að hlusta á bæjarbúa og þjóna þeim. Auðvitað keppum við að sætum í bæjarstjórn. Við erum í þessum slag, til að hafa áhrif á það hvernig framtíð fjölskyldunnar verður í Garðabæ. Við verðum vakin og sofinn yfir því, að sá flokkur sem fer með völd, hlusti og heyri taktinn í samfélaginu. Og bregðist við þar sem þörfin er mest,” segir Lárus að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar