26 sýnendur á haustsýning Grósku

Haustsýning Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ, hefst helgina 13.-14. nóvember kl. 13:30-17:30. Sýnendur eru 26 og þemað frjálst þannig að búast má við fjölbreytni. Sýningin er haldin í Gróskusalnum á 2. hæð við Garðatorg 1. Í stað opnunarhófs við upphaf sýningar verður móttökuhóf fimmtudaginn 18. nóvember kl. 19-22, sama kvöld og Tónlistarveisla í skammdeginu fer fram á Garðatorgi.

Upplagt er því að byrja menningarkvöldið með heimsókn í Gróskusalinn þar sem Guðrún Ágústa Gunnarsdóttir og Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir syngja og flytja tónlist upp úr kl. 19. Léttar veitingar verða í boði og tækifæri gefst til að spjalla við myndlistarmennina sem verða við sýninguna. Garðbæingar jafnt sem aðrir eru hvattir til að fjölmenna og gleðjast með Grósku en gæta þó að sóttvörnum. 

Rósa eftir Álfheiði Ólafsdóttur

Haustsýningin verður síðan opin áfram helgarnar 20.-21. og 27.-28. nóvember kl. 13:30-17:30.

Gróska er öflugt myndlistarfélag sem stendur fyrir margvíslegu sýninga- og námskeiðahaldi. Nefna má námskeið í pappamassamótun, hugleiðslu með málun og alkóhólblekmálun sem nýlega voru haldin og á næstu mánuðum er í bígerð að halda námskeið í grafík, samfélagsmiðlakynningu, bókagerð og olíumálun. Til að efla félagsandann og samneyti myndlistarmanna hittast Gróskuliðar auk þess og mála saman í Gróskusalnum eða gera sér glaðan dag á annan hátt. 

Í framhaldi af Haustsýningunni hefst ný sýningaröð í desember: Listamenn hausts og vors hjá Grósku. Árný Björk Birgisdóttir og Álfheiður Ólafsdóttir ríða á vaðið sem listamenn haustsins og þegar nær dregur jólum taka Emma Kristina Herrera, Aníta Theodórsdóttir og Anna Ólöf Jansdóttir (AMA) við. 

Konungur krummanna eftir Gunnar Júlíusson

Í Grósku starfar fjölbreyttur hópur fagmenntaðra og sjálfmenntaðra myndlistarmanna. Félagið hefur frá upphafi haft það markmið að leyfa öllum að blómstra í sköpuninni, meðal annars í því skyni efla myndlistina í Garðabæ. Öllum 18 ára og eldri sem fást við myndlist, hvort sem er í tvívíðu eða þrívíðu formi, og búa eða vinna í Garðabæ er því velkomið að ganga í Grósku. Hægt er að skrá sig í félagið gegnum fésbókarsíðu Grósku facebook.com/groska210/ eða með því að senda póst á [email protected].

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar