Haukur Helgi Pálsson til Álftaness og Kjartan framlengir sem þjálfari liðsins

Það er mikill metnaður hjá nýliðum Álftaness í Subway-deild karla í körfuknattleik, en Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur samið við félagið og fylgir þar með í fótspor Harðar Axels Vilhjálmssonar, sem kom frá Keflavík í síðustu viku.

Hvað gerir Ægir Þór?

Álftaness hefur því tryggt sér tvo landsliðsmenn á einni viku, en orðrómur var í gangi að þessir leikmenn ásamt Ægi Þór Steinarssyni væru allir á leiðina í Stjörnuna. Svo spurningin er, hvað gerir Ægir Þór?

Haukur hefur verið einn fremsti körfuboltamaður þjóðarinnar um langt árabil. Hann hefur leikið 74 landsleiki og lék með landsliðinu á EM 2015 og 2017.

Uppgangur Álftaness eftirtektarverður

„Uppgangurinn á Álftanesinu hefur verið eftirtektarverður og verður gaman að skrifa söguna með því að taka þátt í fyrsta tímabili félagsins í efstu deild. Metnaðurinn í félaginu er mikill. Leikmannahópurinn er sterkur og ég er viss um að við getum látið góða hluti gerast. Ég er fullur tilhlökkunnar að mæta í Forsetahöllina,“ segir Haukur í fréttatilkynningu frá Álftanesi, en undanfarin tvö tímabil hefur Haukur leikið með Njarðvík.

Huginn og Kjartan

Kjartan þjálfar liðið áfram

Þá hefur Kjartan Atli Kjartansson hefur framlengt samning sinn sem þjálfari við Álftanes. Kjartan, sem er uppalinn Álftnesingur tók við heimaklúbbnum á seinasta tímabili og tryggði liðinu sæti í Subway deildinni. Í lok tímabilsins var Kjartan Atli svo valinn þjálfari ársins í fyrstu deild karla.

„Það var okkur mikið kappsmál að endurnýja samning okkar við Kjartan Atla og halda áfram á þeirri vegferð sem liðið er á. Fyrir Álftanes er það stór áskorun að fara upp í efstu deild en líkur okkar á að ná árangri þar eru þeim mun meiri með Kjartan sem þjálfara. Fyrir samfélagið á Álftanesi skiptir líka máli að okkar maður sé við stjórnvölinn,“ segir Huginn Freyr Þorsteinsson formaður körfuknattleiksdeildar Álftaness

,,Ég hlakka til komandi tímabils. Að bjóða bestu körfuboltalið Íslands til okkar á Álftanesið gefur mér mikið, hafandi alist upp á nesinu. Ég veit að börnin á nesinu munu læra mikið þegar þau mæta á leikina okkar. Ég er ótrúlega ánægður með stuðninginn sem við fengum í 1. deildinni. Við munum mæta með sterkt lið til leiks í Subway-deildina og með stuðningi samfélagsins á nesinu munu góðir hlutir gerast,” segir Kjartan Atli Kjartansson þjálfari Álftaness.

Forsíðumynd: Huginn og Haukur Helgi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar