Hátíðarkveðja frá bæjarstjóra

„Það er yndislegt að hlusta á þögn náungans“, sagði skáldið Thomas Hardy. Það er auðvitað vottur af húmor í þessum orðum, en líka sannleikur. Það er nefnilega augljóslega traust og öryggi í samskiptum fólks sem getur hlustað saman á þögnina án þess að þurfa að rjúfa hana með orðum. En þetta leiðir samt hugann að mikilvægi þess að hlusta yfirhöfuð. Hin sígilda vísbending um að við höfum tvö eyru en aðeins einn munn segir sína sögu. Í samskiptum við annað fólk eigum við að leggja meiri áherslu á að hlusta en að tala. Það má kannski segja að toppurinn á því sé að hlusta saman á þögnina.

Þegar hátíð gengur í garð erum við minnt á það hversu dýrmætt það er að rækta samskipti við hvort annað, hlusta eftir vonum, væntingum, áhyggjum eða óöryggi hvors annars. En umfram allt að nota samveru og hlýju sem fylgir jólum og áramótum til að styðja og styrkja hvert annað. Það er mikilvægt hvort sem lífið er að færa okkur sjálfum, fjölskyldu eða vinum spennandi tækifæri eða krefjandi áskoranir til að takast á við.

Á fyrstu mánuðum mínum í starfi sem bæjarstjóri hef ég notið þeirrar gæfu að eiga mikil og góð samskipti við bæjarbúa, starfsmenn bæjarins og aðra um alls konar málefni. Þau eru vissulega bæði stór og smá en þau skipta öll máli.

Það þarf góð samskipti til að skapa sterka liðsheild. Ég er mjög stoltur af því að fara fyrir liðsheild starfsmanna bæjarins sem leggur sig fram um að hlusta og leysa mál. Það framkallar góða þjónustu, sem okkur hefur tekist að veita þó það megi alltaf gera betur. Ég vil líka hrósa mínu samstarfsfólki í bæjarstjórn fyrir metnað og dugnað í sínum störfum. Það sama á við um nefndarfólk í fjölmörgum nefndum bæjarins, t.d. ungmennaráði þar sem ungt fólk leggur sig fram um að hafa áhrif á nærsamfélagið sitt.

Samskipti við bæjarbúa taka á sig ýmsar myndir. Þau eru í langflestum tilvikum bráðskemmtileg. Á aðventunni hitti ég t.d. leikskólabörn sem fengu mig til þess að aðstoða sig við að tendra ljósin á jólatrénu okkar á Garðatorgi. Það var mögnuð stund og ótrúleg orkuhleðsla að hitta þessa frábæru ungu íbúa bæjarins. Fleiri en eitt þeirra spurðu mig: „Af hverju ertu með skakkar tennur?“ Í spurningunni fólst eftirtektarsemi, einskær forvitni en alls engin neikvæðni. Ég verð að viðurkenna að ég gat ekki svarað spurningunni vel.

Hluti af góðum samskiptum í samfélagi felst í því að fólk hafi áhrif og finni að á það sé hlustað. Það eru verðmæti í ábendingum bæjarbúa og ber að þakka sérstaklega fyrir þær. Í mörg ár höfum við fengið íbúa til að senda okkur ábendingar um fjárhagsáætlun það hafa verið tillögur að nýjum verkefnum, hvar megi hagræða og hvaða verkefni eigi að leggja áherslu á í starfsemi bæjarins. Ég er mjög ánægður með að við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár samþykktum við nokkur verkefni og áherslur sem komu fram í þessu ferli. Fjölmargar hugmyndir hafa líka borist í gegnum samráðsverkefnið Betri Garðabær undanfarin ár. Þau verkefni sem bæjarbúar kusu eru flest komin í framkvæmd eða nú þegar orðin að veruleika. Við höldum svo áfram með þetta verkefni á næsta ári.

Það eru spennandi tímar framundan í Garðabæ. Við erum að fjárfesta í vexti og velsæld sem kemur greinilega fram í áætlun næstu ára hjá okkur um leið og við sýnum ábyrgð í rekstri. Með því stuðlum við að farsæld og auknum lífsgæðum fyrir íbúa bæjarins.

En talandi um hlustun og að hlusta á þögnina. Við erum svo heppin í Garðabæ að búa við dásamlega náttúru í túnfætinum hvort sem það er úti við strönd eða í upplandinu. Ég vil hvetja okkur öll til að fara út og njóta náttúrunnar, hlusta á þögnina og á samferðafólkið eftir því sem við á.

Ég færi öllum íbúum þakkir fyrir hreinskilin samskipti á árinu og er þakklátur fyrir þær góðu móttökur sem ég hef fengið á fyrstu mánuðum í starfi.

Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar