Harpa Rós Gísladóttir

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver er ég?
Harpa Rós Gísladóttir heiti ég og er 43 ára Garðbæingur. Ég var lánsöm að flytja í Garðabæ 10 ára gömul og hér ætla ég að eyða ævidögum mínum. Við hjónin eigum 4 yndisleg börn á aldursbilinu 21 árs og niður í 8 ára aldur. Ég starfa sem mannauðssérfræðingur hjá Bláa Lóninu, er með kennararmenntun og starfaði um tíma sem kennari í Garðaskóla. Ásamt meistaraprófi í Mannauðsstjórnum hef ég lokið ICF vottuðu markþjálfanámi. Ég er mikil félagsvera og hef látið að mér kveða í barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar Stjörnunnar, stofnaði Stjörnukonur sem er deild innan félagsins sem sinnir uppbyggingar- og fræðslustarfi fyrir yngri deildir félagsins. Ég sit í þorrablótsnefnd ásamt því að hafa tekið virkan þátt í foreldrastarfi í skólum og íþróttum barnanna. Heiðarleiki, sanngirni og samviskusemi eru þeir kostir sem myndu lýsa mér vel ásamt því að vera hugmyndarík og óhrædd við að koma hlutum í verk. Ég býð mig því fram í 4.-6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Af hverju býður þú þig fram?
Ég býð mig fram því ég vil láta gott af mér leiða. Ég hef brennandi áhuga á fólki, íþróttum og ýmis konar félagsstarfi. Reynsla mín úr sjálfboðastarfi innan Stjörnunnar síðastliðin 6 ár hefur gert mig enn ástríðufyllri fyrir því að gera vel þegar kemur að íþrótta- og tómstundamálum í bænum. Hafandi kennt unglingum og eigandi þrjú börn á grunnskólaaldri þá vil ég sjá meira lagt í forvarnarstarf, því áskoranir samfélagsins felast að miklu leyti í því að koma í veg fyrir vandamál í stað þess sífellt að bregðast við þeim. Mál heilsugæslunnar skipta mig máli og vil ég að Garðabær geri betur og þrýtsi á stjórnvöld til að efla heilsugæsluna til muna hér í bænum. Ég kæmi með ferskan andblæ inn í bæjarpólitíkina og með mikinn áhuga og vilja til að gera gott enn betra.

Hver eru þín áherslumál?
Íþrótta- og tómstundamálin skipta gríðarlega miklu máli til að viðhalda heilsusamlegu líferni en áhersla og samspil forvarna ásamt hollri hreyfingu gæti verið lausnin við að sporna við stórum og dýrkeyptum vandamálum. Þetta eru atriði sem ég sé fyrir mér að þurfi að forgangsraða þar sem ekkert getur talist mikilvægara en líkamlegt og andlegt heilbrigði. Ég vil að Garðabær stígi fastar niður fæti þegar kemur að heilsugæslumálum og bæta þjónustustig. Ég mun leggja mitt að mörkum til að fylgja áherslumálum mínum eftir þar sem ég er sannfærð um að þessi málefni skiptir okkur öllum miklu máli.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar