Útnefning bæjarlistamanns Garðabæjar fór fram við hátíðlega athöfn í Sveinatungu sl. föstudag, en fiðlusmíðameistarinn Hans Jóhannsson er nýr bæjarlistamaður.
Hans fagnar nú 40 ára starfsafmæli og sýning á hljóðfærum hans sem fór fram í Ásmundarsal var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þó Hans hafi helgað sig nýsmíði á klassískum strengjahljóðfærum hefur hann einnig flutt fyrirlestra um hljóðfærasmíði og hljóðvistfræði víða um heim og tekið þátt í gerð sjónvarpsmyndar um efnið. Síðustu ár hafa hljóðrannsóknir á strokhljóðfærum verið eitt af verkefnum Hans en verkefnið er unnið með hópi vísindamanna og hljóðfærasmiða við Cambridge-háskóla í Bretlandi.
Við athöfnina lék strengjakvartett skipaður Sigrúnu Eðvaldsdóttur fiðluleikara, Auði Hafsteinsdóttur fiðluleikara, Þórunni Ósk Marinósdóttur víóluleikara og Bryndísi Höllu Gylfadóttur selluleikara en þær léku allar á hljóðfæri eftir Hans Jóhannssonar, bæjarlistamanns Garðabæjar 2024.
Forsíðumynd: Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir, Torfi Geir Símonarson, Guðrún Arna Sturludóttir, Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi, Hans Jóhannsson bæjarlistamaður, Almar Guðmundsson bæjarstjóri og Steinunn Vala Sigfúsdóttir.