Hafnarfjörður vill ekki lengur taka við skólpi frá Garðabæ

Hafnarfjörður hefur sagt upp samningi við Garðabæ um viðtöku á skólpi frá Garðabæ í fráveitu Hafnarfjarðar og hefur Garðabær aðeins eitt ár til að bregðast við, því uppsagnarfresturinn sem Hafnarfjörður gefur Garðabæ er eitt ár og tekur hann gildi 1. október 2023.

Í bréfi sem Garðabær fékk frá Hafnarfirði varðandi uppsögnina kemur fram að í ljósi mikillar uppbyggingar og þar með auknu álagi á fráveitu Hafnarfjarðar er samningi um viðtöku skólps, sem undirritaður var 14. desember 2010, sagt upp. Uppsagnarfresturinn er eins og áður segir eitt ár og lýkur því samningi þann 1. október 2023.

Einnig kemur fram í bréfinu að í samtali sem Guðmundar Elíassonar, á umhverfis- og skipulagssviði Hafnarfjarðar, átti við Eystein Haraldsson sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs Garðabæjar, um málið þá finnst Eysteini árs frestur til framkvæmda vera mjög stuttur og ólíklegt að Garðabær nái að klára nýja dælustöð og lagnir innar árs. Verkefnið færi hins vegar inn í fjárhagsáætlun Garðabæjar og í kjölfarið hönnun og framkvæmdir.

Bæjarráð Garðabæjar fjallaði um uppsögnina á síðasta fundi bæjarráðs þar sem bæjarstjóra Garðabæjar var falið að hefja viðræður við fulltrúa Hafnafjarðarkaupstaðar varðandi samstarf um hönnun og tímasetta verkáætlun vegna lausna á fráveitumálum fyrir Garðabæ.

Mynd. Dælustöð við Arnarnesvog

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar