Hafliði Kristinsson, formaður íbúasamtakanna í Urriðaholti og fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi var útnefndur Garðbæingurinn okkar fyrir árið 2024 í gær við hátíðlega athöfn í Sveinatungu.
Garðabær óskaði eftir tilnefningum frá bæjarbúum og bárust 111 fjölbreyttar tilnefningar. Tilnefningarnar voru svo bornar undir dómnefn en hana skipuðu þau Birna Guðmundsdóttir Hrafnhildi Sigurðardóttur og Ingimundur Orri Jóhannsson. Dómnefnd útnefndi Hafliða sem Garðbæing ársins 2024.
Í rökstuðningi dómnefndar og í tilnefningum frá bæjarbúum er Hafliða lýst sem vítamínsprautu sem heldur Garðabæ og íbúum Urriðaholts við efnið þegar kemur að þróun og uppbyggingu hverfisins. „Hafliði er máttarstólpi í samfélaginu í Urriðaholti. Hann hefur með störfum sínum sem formaður íbúasamtaka Urriðaholts markað djúp spor í þróun og eflingu hverfisins. Sjálfboðastarf hans í Urriðaholti hefur ekki aðeins haldið Garðabæ við efnið, heldur einnig íbúum hverfisins.“
Almar sagði nokkur vel valin orð um Hafliða áður en hann veitti honum verðlaunin. „Hafliði er ávallt virkur í samtali við íbúa hverfisins, hlustar af athygli og tryggir að raddir þeirra heyrist. Fá hverfi geta státað af jafn vel sóttum íbúafundum og Urriðaholt og íbúasíða hverfisins heldur öllum við efnið. Þar hefur Hafliði reynt vera mjög góður milliliður, en hann hefur lagt sig fram um að viðhalda reglulegu sambandi við bæjarstjórn Garðabæjar til að tryggja að brýn verkefni fái þá athygli sem þau þurfa,“ sagði Almar meðal annars.
Mynd: Almar Guðmundsson, Margrét Bjarnadóttir, Páll Ásgrímur, Hafliði Kristinsson, Ingimundur Orri Jóhannsson, Birna Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Sigurðardóttir.