Gunnar Valur Gíslason

Garðar Grásteinn – kynning á frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins fyrir prófkjör sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ 5. mars nk.

Hver er ég og eftir hvaða sæti sækist ég?
Ég er fæddur á Akranesi árið 1958 og er næstelstur í fimm systkina hópi. Foreldrar mínir voru Gísli Sigurðsson, húsasmíðameistari og Erla Guðmundsdóttir, fyrrum skólaritari í Brekkubæjarskóla á Akranesi. Þau eru bæði látin.

Konan mín heitir Hervör Poulsen, bókari hjá SÁÁ. Við eigum fjögur uppkomin börn og níu barnabörn. Við höfum búið á Álftanesi frá því um 1992 nema á árunum 2007-2012 en þá bjuggum við í Reykjavík.

Ég tók stúdentspróf frá eðlisfræðideild MR 1978, útskrifaðist sem byggingarverkfræðingur frá Háskóla Íslands 1982, fór eftir það í framhaldsnám og útskrifaðist með Diplomgráðu í verkfræði frá Háskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi 1986.

Ég lauk námsbraut í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík 2011 og útskrifaðist með MBA gráðu frá Háskóla Íslands 2013.

Sem sveitarstjóri og bæjarstjóri á Álftanesi 1992-2005 sat ég í ýmsum nefndum og stjórnum, þ.á.m. í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, stjórn Strætó bs., stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. og byggingarnefnd Fjölbrautaskólans í Garðabæ.

Ég var ráðinn forstjóri byggingarfélagsins Eyktar ehf. 2005 og gegni nú starfi framkvæmdastjóra fasteignafélagsins Íþöku ehf., systurfélags Eyktar.

Minn stjórnmálaferill hófst á Akranesi 1990 sem fyrsti varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og með ýmsum nefndastörfum þar.

Undanfarin átta ár hef ég verið bæjarfulltrúi í Garðabæ og formaður menningar- og safnanefndar, á tímabili forseti bæjarstjórnar, bæjarráðsfulltrúi og stjórnarmaður í Strætó bs.

Ég leita eftir stuðningi sjálfstæðisfólks í Garðabæ í 3.-4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í kosningunum nú í vor.

Af hverju býð ég mig fram?
Ég hef sem bæjarfulltrúi og formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar síðastliðin átta ár unnið með félögum mínum að mótun samfélagsins okkar hér í Garðabæ. Ég býð bæjarbúum áfram krafta mína til að vinna bæjarfélaginu gagn á næsta kjörtímabili.

Garðabær í forystu
Mitt leiðarljós fyrir samfélagið okkar hér er „Garðabær í forystu“. Hér sé sterkt, samheldið og fallegt fjölskylduvænt samfélag, heilsueflandi umhverfi, öryggi íbúa í öndvegi, fjölþætt menningarlíf, þjónusta í fremstu röð, val um þjónustu, hreint loftslag, fallegt umhverfi til útivistar og að Garðabær sé eftirsóknarverður staður fyrir fólk og fyrirtæki.

Ég legg mikla áherslu á að fjárhagur Garðabæjar sé traustur og skattálögur á Garðbæinga séu lágar.

Nánar á: www.gunnarvalur.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar