Guðfræðingurinn Benni Sig fagnar fimmtugsafmæli með glæsilegum styrktartónleikum

Sunnudaginn 23. mars kl. 17:00 verður haldið tilkomumikið tónlistarveisla í Vídalínskirkju þegar Benedikt Sigurðsson, betur þekktur sem Benni Sig, fagnar fimmtugsafmæli sínu með styrktartónleikum. Af þessu tilefni hefur Benedikt ákveðið að láta gott af sér leiða og safna fé fyrir Örninn, minningar- og styrktarsjóð fyrir börn sem hafa misst ástvini.

Tónleikarnir, sem fara fram í Vídalínskirkju, bjóða upp á einstaka tónlistarupplifun með einvalaliði listamanna. Á meðal þeirra sem munu stíga á svið eru Bjartmar Guðlaugsson, Gissur Páll Gissurarson, Erna Hrönn, Björn Thoroddsen, Dísa Thors, Gospelkór Jóns Vídalíns, KK, Hera Björk, Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Karólína og Keli, Heiða Ólafs og fleiri. Viðmiðunarverð á tónleikana er 3.000 kr., en hver og einn borgar eftir efnum og ástæðum.

Afmælisbarnið Benni Sig skellir í eina styrktartónleika á afmælisdaginn sinn

Tækifæri til þess að láta gott af sér leiða

Í samtali við Garðapóstinn um framtakið sagði Benedikt: „Ég verð fimmtugur þann 23. mars og ákvað að það væri tækifæri til þess að láta gott af mér leiða og ákvað að velja Örninn, styrktarfélag fyrir börn sem hafa misst ástvini. Örninn er einmitt með aðsetur í Vídalínskirkju og því þótti mér það nærtækast. Ég flutti í Garðabæinn haustið 2020 og hafa Garðbæingar tekið okkur afskaplega vel og þetta er yndislegt og samheldið samfélag. Ég er svo heppinn að fá að starfa í Vídalínskirkju sem guðfræðingur í allskyns verkefnum en kirkjan er algjört mannlífstorg og forréttindi að fá að vinna með frábæru samstarfsfólki og einstaklega hlýjum og fallegum söfnuði. Mér finnst ég vera farinn að þekkja þverskurðinn af samfélaginu hérna í Garðabæ og hér vill ég svo sannarlega búa. Ég hef verið í Húnahópnum síðan daginn sem ég flutti í bæinn og mun því hækka meðalaldur hópsins enn fremur með að fylla fimmta tuginn, og nógur var meðalaldurinn hár fyrir,“ segir hann brosandi.

Hvetur fólk á öllum aldri að mæta

Benedikt hvetur alla til að mæta og taka þátt í þessu einstaka tækifæri til að njóta tónlistar og styðja við mikilvægt málefni. „Tónleikarnir mínir verða haldnir kl. 17:00 sunnudaginn 23. mars og eru allir velkomnir og vonast ég til þess að sjá sem flesta. Viðmiðunarverð inn á tónleikana er kr. 3000 en það má borga meira og einnig minna, hver greiðir eftir efni og ástæðum. Hvet fólk á öllum aldri að mæta, börn, unglinga og alla þá sem langar að mæta og láta gott af sér leiða fyrir samfélagið.“

Bjartmar Guðlaugsson er einn margra tónlistarmanna sem mun stíga á svið

Um Örninn

Örninn er minningar- og styrktarsjóður sem Matthildur Bjarnadóttir stendur fyrir og starfar einnig í Vídalínskirkju. Félagið veitir stuðning fyrir börn sem hafa misst ástvini sína og vinnur að því að styðja þau í sorgarferlinu, en Matthildur hefur verið með greinar í Garðapóstinum undanfarnar vikur tengdar þessu málefni. Með styrktartónleikunum vill Benedikt vekja athygli á mikilvægi þessa verkefnis og hvetja til samstöðu og stuðnings við þau börn sem þurfa á að halda.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins