Gripir frá Hönnunarsafni Íslands á nýrri sýningu Þjóðminjasafns Noregs í Osló

Hönnunarsafn Íslands vinnur líkt og önnur söfn í alþjóðlegu samhengi. Starfsfólk þess er reglulega í samtali við söfn erlendis og reynt er að kynna íslenska hönnunarsögu þegar tækifæri gefst.
Fyrir nokkrum árum (fyrir covid) höfðu sýningarstjórar frá LACMA safninu í Los Angeles samband við Hönnunarsafnið og báðu um hjálp við að finna gripi frá Íslandi með tengingu við Bandaríkin á árabilinu 1890-1980. Þess má geta að LACMA er stærsta safnið í vesturhluta Bandaríkjanna. Þær Bobbye Tigerman og Monica Obniski komu til landsins í heimsókn sem varð til þess að tveir gripir frá Íslandi eru nú orðnir sýningargripir á stórri sýningu þar sem fjallað er um áhrif norrænnar hönnunar og handverks á Bandaríkin. Einnig var dr. Arndís S. Árnadóttir beðin um að skrifa grein í veglega sýningarskrá sýningarinnar sem komin er út. Sýningin heitir Scandinavian Design and the United States, 1890-1980 og er sú fyrsta sem fjallar eingöngu um hönnunarleg tengsl Bandaríkjanna og norrænu landanna fimm. Hingað til hefur mikið verið fjallað um tengsl Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs og Bandaríkjanna eftir seinni heimsstyrjöld og hvernig vörumerkið Scandinavian Design varð til. Ísland náði því miður ekki að stökkva með á þá lest, því er það fagnaðaraefni að sýningarstjórar sýningarinnar hafi gert sér ferð til landsins og kynnt sér tengsl íslenskrar hönnunar og handverks við Bandaríkin, sem voru nokkur. Þarsem íslenskir keramikgripir voru sýndir á stórum sýningum og keyptir af bandarískum söfnurum. Þessir tveir íslensku gripir frá Listvinahúsinu og Glit verða til sýnis í LACMA frá 9. október 2022 – 5. febrúar 2023. Síðan fer sýningin til Milwaukee Art Museum (MAM) og verður frá 24. mars – 23. júlí 2023. Við hvetjum því þá sem eiga leið um Los Angeles eða til Milwaukee til að kíkja á sýninguna og sjá hlut Íslands í henni.

Hringur

Annað stórt verkefni sem Hönnunarsafn Íslands kom að nú nýlega var lán gripa á nýja glæsilega grunnsýningu Þjóðminjasafnins í Noregi. Þjóðminjasafn Norðmanna opnaði nú fyrir stuttu stórt nýtt sýningarhúsnæði í miðbæ Oslóar.

Hönnunarsafn Íslands lánaði nokkra gripi á þá sýningu til 5 ára. Okkur þykir vænt um og erum stolt af að gripir frá okkur séu til sýnis og settir þar með í samhengi við aðra norræna hönnun. Þeir gripir sem hægt er að sjá í sölum safnsins eru: tvö eintök af Birtingi, tískuteikningar eftir Helgu Björnsson og hringur eftir Rúnar frá Keflavík (2014). Einnig átti safnið milligöngu með aðra íslenska gripi sem voru lánaðir á sýninguna.

Það skiptir miklu máli fyrir safnið að það sé fjallað um íslenska hönnun og hönnunarsögu á svona stórum sýningum. Það hefur því miður verið auðvelt að gleyma okkar hlut í hinu stóra alþjóðlegu samhengi. Því er það óskandi að breyting sé að verða á og að hönnunarsaga og gripir Íslendinga fái þá athygli sem þeir eiga svo sannarlega skilið.

Mynd: Þóra Sigurbjörnsdóttir sérfræðingur á Hönnunarsafni Íslands

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar