Gott samfélag byggir á skipulagi sem hugar að velsæld íbúa og lífsgæðum í nærumhverfinu

Garðabær hefur vaxið hratt undanfarin ár og mun vöxtur halda áfram við uppbyggingu í Vetrarmýri, á Álftanesi, í Urriðaholti, við Eskiás, í Hnoðraholti og í Arnarlandi við Arnarneshæð. Í Garðabæ hefur verið litið svo á að hentug rekstrarstærð sveitarfélags sé á bilinu 25.000 til 35.000 íbúar. Ætla má að íbúafjöldi í Garðabæ gæti hafa náð þessari stærð árið 2040.

Ég tel að við skipulag og frekari uppbyggingu eigi að leggja áherslu á gæði frekar en magn. Markmiðið á að vera að móta gott samfélag sem byggir á skipulagi sem stuðlar að velsæld íbúa og laðar fram lífsgæði í nærumhverfinu. Það þarf að huga að sjálfbærni og vistvænum samgöngum og vinna að skipulagi í sátt og samvinnu við íbúa og hagsmunaðila. Einnig þarf að tryggja framsýni og fyrirsjáanleika við uppbyggingu og aðlögun grunnþjónustu í nýjum og vaxandi hverfum til þess að þau séu í stakk búin að taka á móti nýjum íbúum.

Hverfi í sveitarfélaginu eru ólík. Sama gildir um útivistarsvæði. Það skiptir máli að sérkenni hverfis og umhverfis fái að njóta sín. Huga þarf að náttúru, veðurfari, sólarstundum, skuggavarpi og vindáttum snemma á skipulagsferli. Skipulag á þannig að laða fram það besta á hverjum stað til að skapa umhverfi sem ýtir undir velsæld íbúa og lífsgæði í umhverfinu.

Við skipulag þarf að huga að því hvernig byggð og umhverfi geta stuðlað að virkum lífstíl og hvatt íbúa til hreyfingar. Það eru mikil lífsgæði að búa í nánd við náttúruna. Ég vil halda þeirri meginstefnu að flestir íbúar í Garðabæ búi innan seilingar við náttúruna þ.e. hafið, hraunið, vötn, læki, tjarnir eða Heiðmörkina. Ég tel mikilvægt að vinna að umbótum í nærumhverfinu í samvinnu við íbúa, sérstaklega börn, eldri íbúa og fólk með fatlanir til að bæta aðstæður til að rækta lýðheilsu og halda virkni.

Ég tel að það eigi að byggja á heilstæðum hverfum sem mynda samfélög með hverfabrag. Efla þarf hverfiskjarna og opin svæði með það að leiðarljósi að auka lífsgæði í nærumhverfi íbúa og skapa aðstæður sem hvetja íbúa til félagslegs samneytis.

Við skipulag þarf jafnframt að tryggja að í boði verði fjölbreytt húsnæði fyrir íbúa á mismunandi æviskeiðum. Það þarf áfram að huga að framboði íbúða sem henta ungu fólki og fyrstu kaupendum, en íbúðir hugsaðar fyrir þennan aldurshóp eru þegar í byggingu við Eskiás. Þá tel ég vert að skoða möguleika á fleiri öríbúðum í Garðabæ sem byggja á hugmyndafræði deilihagkerfis. Einnig þarf að huga að framboði á rúmgóðu fjölbýli og minna sérbýli, t.d. fyrir fólk sem vill minnka við sig húsnæði.
Tryggja þarf góðar og vistvænar tengingar á milli hverfa, að skólum, íþróttamannvirkjum og aðgengi að útvistaperlum bæjarins sem og þétta stígakerfi innan útivistarsvæða. Í samstarfi við Vegagerðina þarf að þétta net samgöngustíga til að auðvelda hjólaumferð á milli hverfa, sveitarfélaga og meðfram samgönguæðum.

Skipulag sem tekur tillit til velsæld íbúa og laðar fram lífsgæði í nærumhverfinu er einn af lykilþáttum í að móta gott samfélag.

Stella Stefánsdóttir, varabæjarfulltrúi, fulltrúi í skipulagsnefnd og gefur kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar