Gott fólk í framlínuna – þitt atkvæði skiptir máli

Garðabær stendur vel. Þjónusta sveitarfélagsins er framsækin og leiðandi á ýmsum sviðum, bærinn getur státað af öflugu íþrótta-, frístunda- og menningastarfi og tækifærum til að stunda útivist, en það er alltaf svigrúm til að gera betur.

Framfarir byggja á traustum fjárhag og nýsköpun

Ég tel að traustur fjárhagur og nýsköpun séu lykilforsendur framfara í Garðabæ. Það er mikilvægt að byggja áfram á áreiðanlegri fjármálastjórn sem skilar sér í lágum álögum á íbúa og fyrirtæki. Nýsköpun getur ýtt undir framsækna þjónustu, bætt lausnir í stjórnsýslu, stutt við betri nýtingu skattfjár og skapað tækifæri til að byggja upp lífsgæði í nærumhverfinu.

Höldum unga fólkinu okkar í Garðabæ

Unga fólkið okkar á að geta búið í Garðabæ – lifað, leikið og notið þess að vera til innan bæjarmarkanna. Það þarf að auka framboð af íbúðum sem henta ungu fólki, bjóða 12 mánaða börnum á leikskóla og skapa aðstæður fyrir skemmtilegt mannlíf, afþreyingu og menningu fyrir ungt fólk.

Hlúum vel að börnum og einföldum líf fjölskyldna

Það þarf að leggja áherslu á að einfalda líf fjölskyldna með áreiðanlegri og skilvirkri þjónustu á öllum sviðum. Skólar eiga að vera framsæknir og það þarf að bjóða fjölbreytt íþrótta- og frístundastarf sem leggur áherslu á að efla virkni og forvarnir.

Hugsum vel um eldri íbúa

Það er fjölbreyttur hópur eldra fólks í Garðabæ með ólíkar þarfir. Leggja þarf áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í velferðarþjónustu sem auka vitund fólks um ábyrgð á eigin heilsu og umgjörð sem veitir öryggi í eigin búsetu. Það þarf því að vera hægt að bjóða fólki góða valkosti þegar það vill minnka við sig húsnæði, t.d. minni sérbýli. Einnig þarf að viðhalda og efla virkni fólks og skapa tækifæri til félagslegrar samveru.

Lifandi bæjarbragur, gæðastundir og lífsgæði í nærumhverfinu

Gott samfélag byggir á fólkinu. Það eykur velsæld fólks að vera hluti af jákvæðu og lifandi samfélagi. Sveitarfélagið á að leggja sitt af mörkum til að laða fram það besta í nærumhverfinu, styðja virkni íbúa, félagslega samveru og líflegan bæjarbrag. Það er m.a. hægt með mannvænu skipulagi hverfa, með því að efla Garðatorg, hverfiskjarna og tækifæri til að stunda útivist og hreyfingu í nærumhverfinu, með menningarstarfi og skipulögðu íþrótta- og frístundastarfi fyrir fólk á öllum aldri.

Þekking, reynsla og tenging við samfélagið

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins fer fram á laugardaginn. Það er mikilvægt að þú takir þátt í að móta öflugan lista fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Listinn þarf að endurspegla fjölbreytta flóru fólks í Garðabæ og samanstanda af fólki sem þú treystir til að móta Garðabæ til framtíðar.

Ég tel mig hafa þekkingu, reynslu og tengingu við nærsamfélagið sem þarf til. Á þessu kjörtímabili hef ég verið varabæjarfulltrúi, setið í skipulagsnefnd og verið formaður stjórnar Hönnunarsafnsins. Ég er viðskiptafræðingur M.Sc., með fjölbreytta starfsreynslu og stunda doktorsnám í nýsköpun. Ég á fjórar dætur sem hafa alist upp í Garðabæ og þekki og skil mikilvægi góðrar þjónustu við fjölskyldur.

Mér þykir vænt um Garðabæ. Nærsamfélagið er mér hugleikið. Ég vil í einlægni gefa af mér og leggja mitt af mörkum til að gera gott samfélag betra.

Stella Stefánsdóttir er varabæjarfulltrúi og gefur kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar