Gott eða gott árshlutauppgjör?

Í árshlutauppgjöri Garðabæjar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2022 má ætla að rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins sé heilt yfir nokkuð góð sé hún borin saman við sama tímabil í fyrra og við áætlun ársins 2022.

Hagnaður fyrstu 6 mánuði ársins 2022 eru tæpir 2,2 miljarðar króna. sbr. við 400 miljóna króna hagnað alls ársins í fyrra. Áætlanir fyrir þessa fyrstu sex mánuði ársins var afgangur upp á 129 miljónir króna.
Við fyrstu sýn virðist uppgjörið sterkt og gott, sú niðurstaða er dregin fram á vef Garðabæjar: “Góð staða Garðabæjar í árshlutauppgöri.”

Okkur í Viðreisn þykir það hins vegar heldur mikil einföldun.

Guðlaugur Kristmundsson

Þegar betur er að gáð er 3,5 milljarða króna hagnaður vegna lóðasölu  í Vetrarmýrinni. Vissulega er það fagnaðarefni að sala eigna bæjarins sé  arðbær og að Garðabær eigi yfirleitt gnótt af landi til að selja. En þetta eru eignir sem Garðabær selur  ekki oftar en einu sinni og sala á lóðum kallar á fjárfestingu í innviðum. Ef við tökum þessa eignasölu frá rekstri bæjarins er uppgjör bæjarsjóðs neikvæður upp á 1,3 milljarða króna. Það að tala um góða stóðu á rekstri bæjarsjóðs er því hreinlega villandi framsetning, í það minnsta hunsun á að grunnrekstur bæjarins er ekki sjálfbær sem stendur.

Æskilegt er að bæjarstjórn rýni í reksturinn núna og tryggi sjálfbæran og jákvæðan grunnrekstur. Þá fyrst getum við farið að tala um sterkt og  gott uppgjör.

Hér má sjá framsetningu Garðabæjar á rekstrarreikningi uppgjörsins:

Hér er svo búið að einangra fyrir stórum einskiptisliðum og grunnreksturinn  er sjáanlegur. 

Í því árferði sem við búum við í dag má búast við því að reksturinn sé erfiðari en þegar betur árar. Mikil verðbólga, háir stýrivextir og mikill vöxtur bæjarfélagsins toga jú í. Það er einmitt þá sem það er mikilvægt að sjá afkomu af grunnrekstrinum . Bæði fyrir þá sem koma að rekstrinum og fyrir bæjarbúa. 

Þegar ársreikningar eru lagðir fram skiptir öllu að framsetningin sé gagnsæ svo lesandinn þurfi ekki að rýna fylgigögn og viðhengi til að átta sig á hvernig reksturinn stendur í raun og veru.

Mesta hækkunin í útgjöldum Garðabæjar liggur í „Fjármagnskostnaði“ sem var áætlaður 400 m.kr. á fyrstu 6 mánuðunum en reyndust rétt tæpur 1 milljarður króna! Fjármagnskostnaðurinn er því 600 m.k.r hærri en gert var ráð fyrir sem er jú í takt við það efnahagsástand sem við búum við í dag. 
Það verður alltaf  eitt af stóru verkefnum okkar við fjárhagsáætlunargerð að rýna þessa stöðu til gagns og með gagnsæjum hætti og því hlýtur það  að vera næsta verkefni okkar að skoða hvar úrbótatækifærin okkar liggja. 

Þá er brýnt  horfa með ábyrgum augum til útgjaldaliðarins „Annar kostnaður“ stór safnliður sem  hækkar um 500 m.kr. á fyrstu 6 mánuðum ársins.  

Við í Viðreisn teljum að betur fari á því að horfast einfaldlega í augu við þá staðreynd að þrátt fyrir að heildarafkoma bæjarins sé góð þá verður ekki hjá því komist að sjá að grunnrekstur bæjarins er talsvert undir væntingum.  Það á ekki að vera feimnismál og mikilvægt að íbúar séu vel upplýstir  um þá stöðu á heimasíðu Garðabæjar.

Sara Dögg Svanhildardóttir bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar (Forsíðumynd)
Guðlaugur Kristmundsson varabæjarfulltrúi Viðreisnar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar