Kári Sölmundarson formaður Golfklúbbsins Odds í Urriðaholti og Þorvaldur Þorsteinsson framkvæmdastjóri klúbbsins ítrekuðu á fundi íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar í síðustu viku óskir golfklúbbsins um aðstoð við leigu á landi og aðstöðu, uppbyggingu á inniaðstöðu og framkvæmd Íslandsmóts í höggleik í sumar.
Þeir ítrekuðu einnig að tenging við Urriðaholtshverfið verði gerð örugg með undirgöngum undir Flóttamannaveginn, en umferð um veginn hefur aukist mikið á síðustu mánuðum og hættan því fyrir unga iðkendur í Oddi sem búa í Urriðaholti aukist er þau fara yfir veginn.
Einn fallegasti golfvöllurinn á landinu
Golfklúbburinn Oddur (GO) var stofnaður árið 1993. Golfklúbburinn Oddur er meðlimur að GSÍ.
Hugmyndin að stofnun GO var að gefa félögum í Golfklúbbi Oddfellowa (GOF) möguleika á að taka þátt í starfi GSÍ og ekki síður að opna Urriðavöll fyrir golfáhugamönnum.
Urriðavöllur er glæsilegur 18 holu, par 71 og óhætt er að fullyrða að völlurinn er með glæsilegri golfvöllum landsins. Auk Urriðavallar býður svæðið upp á 9 holu par 3 völl sem heitir Ljúflingur. Á svæðinu er einnig stórt og gott æfingasvæði (básar), púttvellir og vippgrín til æfinga.