Goðsögnin kveður – Daníel Laxdal, leikjahæsti og einn besti leikmaður Stjörnunnar frá upphafi leggur skóna á hilluna

Það verður sjálfsagt tilfinningaþrungin stund á Samsungvellinum á laugardaginn þegar Stjarnan mætir FH í lokaleik Bestu-deildarinnar, því hinn eini og sanni, Daníel Laxdal, goðsögnin í Garðabænum, hefur ákveðið að skella takkaskónum á hilluna eftir leikinn, en Danni varð 38 ára á árinu.

Daníel var aðeins 17 ára er hann lék sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk Stjörnunnar á móti Þrótti Reykjarvik þann 6. ágúst 2004 og nú 20 árum síðar, þegar skórnir fara á hilluna þá er Danni orðinn leikjahæsti leikmaður Stjörnunnar, búinn að leika 529 mótsleik með félaginu og skorað í þeim 17 mörk.

Danni, sem hefur allan sinn feril haldið tryggð við uppeldisfélagið sitt hefur átt einstaklega farsælan feril og að öllu jöfnu verið fremstur á meðal jafningja í þessi 20 ár. Danni var í algjöru lykilhlutverki þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari árið 2014 og bikarmeistari árið 2018 og hann hefur nokkrum sinnum verið valinn í lið ársins í deildinni. Daníel var heiðraður sérstaklega í ágúst í fyrra þegar hann lék sinn 500 mótsleik fyrir Stjörnuna, en hann er eini knattspyrnumaðurinn sem hefur leikið meiri en 500 mótsleiki fyrir eitt íslenskt félag.

Hef alltaf viljað hætta á mínum forsendum

En hvað segir Daníel sjálfur um þess ákvörðun, er hún búin að vera lengi að gerjast hjá honum og hver er ástæðan að hann sé að setja skóna á hilluna? ,,Í dag er ég mjög sáttur með þessa ákvörðun. Þetta hefur vissulega verið til umhugsunar hjá mér en að sama skapi hef ég alltaf viljað hætta á mínum forsendum,” segir Daníel.

Danni er leikjahæsti leikmaður Stjörnunnar, búinn að leika 529 mótsleik með félaginu og skorað í þeim 17 mörk. Það er einn leikur eftir.

Hlakka til að vera ekki skuldbundinn fótboltanum

Fótboltinn er búinn að fylgja þér allt frá unga aldri, áttu von á að það verði erfitt að segja skilið við hann – skapast ákveðið tómarúm sem erfitt verður að fylla upp í eða tekur eitthvað annað við? ,,Það verður skrítið að hætta en mér finnst þetta góður tímapunktur að leggja skóna á hilluna, en að sama skapi hlakka ég til að njóta með mínu fólki og vera ekki skuldbundinn fótboltanum.”

Áttaði mig meira eftir á hvað þetta var mikið afrek og hvað þetta var bilað

En þegar þú ferð yfir þennan 20 ára feril þá toppar sjálfsagt ekkert árið 2014 þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari og átti sannkallað Evrópuævintýri eða hvað? ,,Nei, það gerir það ekki. Þetta var náttúrulega óraunverulegt. Ég áttaði mig meira eftir á hvað þetta var mikið afrek og hvað þetta var bilað. Mér fannst þetta geggjað þegar við vorum að þessu en svo áttaði ég mig meira á því hvað þetta var gjörsamlega magnað. Þegar maður sér myndböndin og stemmninguna, sérstaklega hjá stuðningsmönnunum þá er stutt í gæsahúðina enn í dag,” segir hann brosandi.

Ég var aldrei að fara að tapa þriðja úrslitaleiknum

Þú varðst líka bikarmeistari árið 2018. Það hefur líka verið eftirminnilegur leikur, stórt að taka bikarinn? ,,Jú, það er rétt og mjög stórt eftir að hafa tapað tveimur úrslitaleikjum áður. Ég hugsaði alveg að ég er ekki að fara tapa þriðja úrslitaleiknum í röð. Það var mín hvatning í að klára þetta. Það var ekki séns að ég var að fara tapa þessu,” segir hann en Stjarnan vann Breiðablik í úrslitaleiknum eftir dramtíska vítaspyrnukeppni.

Svekktur að vinna ekki tvöfalt árið 2018

Ef þú skoðar liðið sem varð Íslandsmeistari árið 2014 og það sem varð bikarmeistari árið 2018, hvort liðið var sterkara og eru þetta bestu Stjörnuliðin sem þú hefur leikið með? ,,Þetta voru bæði geggjuð lið, hvort með styrkleika á sinn hátt. Það var reyndar smá svekkjandi árið 2018 að við áttum séns að vinna tvö-falt. Það situr aðeins í mér því við áttum klárlega færi á því. “

Danni ásamt Jóa Lax bróðir sínum og fjölskyldu eftir bikarsigurinn árið 2018

Okei ég er að spila Evrópuleik með Stjörnunni

Þú lékst 24 Evrópuleiki fyrir Stjörnuna og það hefur engin leikið jafn margar Evrópuleiki fyrir félagið. En hvaða Evrópuleikur er þér minnistæðastur? ,,Þegar ég horfði á önnur íslensk lið spila í Evrópu þá langaði mig alltaf að komast í Evrópukeppni fyrir Stjörnuna. Þannig að fyrsti leikurinn á móti Bangor var ákveðið móment þar sem ég hugsaði ,,Okei, ég er að spila Evrópuleik með Stjörnunni.” Svo hefur maður verið það heppinn að spila á geggjuðum völlum t.d. Parken, Celtic Park og San Siro. Það að fá að spila með sínu liði á móti svona frábærum liðum á svona geggjuðum völlum, það var extra sætt og að fá að gera það með sínu uppeldisfélagi.”

Það þarf bara að hlusta á þinn eigin líkama

Þú ert orðinn 38 ára, búinn að leika í 20 ára með meistaraflokki, verið einn besti, ef ekki besti varnarmaður deildarinnar á þessum árum, en það hefur komið fram að þér hafi ekkert þótt sérstaklega gaman á æfingum, þú borðar pizzur í öll mál og þér sé ílla við að rúlla og fara í ísbað. Er þetta rétt og hvernig hefur þú eiginlega haldið þér í fermstu röð allan þennan tíma? ,,Ég held að það sé engin rétt formúla. Það þarf bara að hlusta á þinn eigin líkama. Ég rúllaði aldrei eða fór í ísbað því það gerði aldrei neitt fyrir mig, það fer bara eftir persónuleika og leikmönnum. En já vissulega elska ég pizzur, ætli það sé of seint að fá spons frá Pizzunni eða Dominos,” spyr hann og glottir út í annað.

Fyrirliðinn Daníel Laxdal

Í grunninn vill ég bara reit og spil En hvað er þetta með æfingarnar, að þér hafi ekki þótt sérlega gaman að æfa, eru þetta smá ýkjur eða eitthvað til í þessu? ,,Í grunninn vill ég bara reit og spil. Oft þegar við vorum að taka leiðinlegar æfingar þá skildi ég lokamarkmiðið og lét mig hafa það. “

Mun einbeita mér að verða betri smiður

En hvað tekur við hjá Danna eftir að skórnir eru komnir á hilluna? ,,Eftir tímabilið mun ég taka mér gott frí og eftir það mun ég einbeita mér að verða betri smiður.”

Og ætlar þú eitthvað að koma að starfi knattspyrnudeildarinnar í framhaldinu eða taka þér góða pásu frá boltanum? ,,Ég held ég muni klárlega vera eitthvað tengdur Stjörnunni en látum það bara koma í ljós. “

Hvað með þjálfun, sérðu fyrir þér að þjálfa einn góðan veðurdag, þá yngri flokka eða meistaraflokk? ,,Ég hef alveg hugsað út í það en það verður þá ekki strax. En ég myndi þá líklega byrja í yngri flokkunum og sjá svo til. “

Ég var vissulega sár á einhverjum tímapunkti

Eftir að hafa leikið þetta vel á þessum 20 árum, allt frá því að þú komst fyrst inn 17 ára og til dagsins í dag, þá fékkstu aldrei tækifærið með yngri landsliðum Íslands né A-landsliðinu, sem margir kölluðu þó eftir á sínum tíma. Ertu svekktur með að hafa ekki náð að leika landsleik og varstu stundum ósattur að hafa ekki verið valinn? ,,Auðvitað dreymir öllum um að spila fyrir landsliðið og ég var vissulega sár á einhverjum tímapunkti. Svo var það einn landsleikur á móti Færeyjum þar sem ég var ekki valinn, þá setti ég mér ný markmið og tók þá ákvörðun að einbeita mér alfarið að Stjörnunni og vinna titla fyrir félagið. “

Ef ég hefði fengið tækifæritil að leika erlendis þá hefði ég 100% stokkið á það

Þú hefur allan þinn feril leikið fyrir Stjörnuna, kom aldrei til greina að skipta um félag annað hvort hér innanalands og var atvinnumennskan aldrei á stefnuskránni? ,,Ég mundi aldrei spila fyrir annað lið en Stjörnuna hérna heima. Ef ég hefði fengið tækifæri til að leika erlendis þá hefði ég 100% stokkið á það.”

Myndað vinatengsl út ævina

Og ef þú lítur til baka, ertu sáttur með ferilinn þinn og hvernig hann þróaðist og þann árangur sem þú náðir? ,,Ég held að ég muni endurspegla ferilinn betur þegar ég er hættur, en auðvitað er mikið að minningum sem sitja eftir og ég hef myndað frábær vinatengsl sem munu endast út ævina.”

Daníel í stuði eftir að Íslandsmeistaratitilinn var Stjörnumanna í Kaplakrika

Sterk og öflug liðsheild

En er eitthvað eitt sem hefur einkennt Stjörnuliðið í gegnum öll þessi ár? ,,Já, ofboðslega sterk liðsheild, menn samstíga og góður vinskapur og öflugir uppaldir leik-menn sem hafa haldið vel utan um hlutina, hópinn og nýja leikmenn,” segir hann og heldur áfram. ,,Við höfum alltaf búið að sterkri liðsheild og vinskapur innan liðsins endurspeglast út á völlinn. Við erum með öfluga uppalda leikmenn sem leiðbeina yngri leikmönnum og með góða yngri leikmenn sem halda okkur eldri á tánum.”

Ég má nú ekki gleyma að minnasta á árið 2010, en þá sló Stjörnuliðið fyrst almennilega í gegn og hefur sjálfsagt aldrei fengið jafn mikið áhorf og það langt út fyrir landssteinana, en það ár tókuð þið upp á því að fagna öllum mörkum með skemmtilegum hætti. ,,Já, þetta var ákveðin stemmning í liðinu. Byrjaði sem grín en vatt svo upp á sig.”

Alexander Scholz besti erlendi leikmaðurinn

Stjarnan hefur fengið marga öfluga leikmenn til liðs við sig, Íslendinga og útlendinga, það er sjálfsagt erfitt að gera upp á milli þeirra, en hver telur þú að hafi verið besti Íslendingurinn sem Stjarnan hefur fengið og að sama skapi hver er besti erlendi leikmaðurinn sem hefur leikið með Stjörnunni á þínum ferli? ,,Besti erlendi leikmaðurinn er Alexander Scholz. Ferilinn hans sýnir hvað hann var góður, hann passaði vel inn í hópinn og við höldum ennþá góðu sambandi í dag. Íslenski leikmaðurinn, það er erfitt að velja, Stjörnumenn sem fara út og koma aftur heim í klúbbinn.“

Biðlar til allra Stjörnumanna að mæta á leikinn á laugardaginn og styðja liðið til sigurs

En skórnir eru ekki enn komnir á hilluna, það er stórleikur framundan á móti FH á laugardaginn þar sem Evrópusæti er undir – hvernig líst þér á þann leik og það væri sjálfsagt gaman að klára þetta með Evrópusæti? ,,Það er alltaf gaman að mæta nágrönnum okkar úr FH. Mér lýst vel á þann leik, mikið undir og ég ætla að biðla til allra Stjörnumanna að mæta á þann leik og styðja okkur til sigurs. Drauma niðurstaðan er að ná Evrópusæti og við stefnum ótrauðir að því. “

Lokaleikur Danna verður á morgun laugardag er Stjarnan mætir FH á Samsungvellinum kl. 16:15, en auk þess að vera að kveðja Danna, ásamt Hilmari Árna og Þórarni Inga, þá á Stjarnan möguleika á krækja í Evrópusæti. Svo fjölmennum á völlinn á morgun, kveðjum goðsögnina og hjálpum Stjörnunn að tryggja sér Evrópusæti sem næst með sigri og ÍA sigri Val.

Hlakka til að mæta á leiki í framtíðinni

Og þótt goðsögnin sé að hætta, einn besti leikmaður Stjörnunnar frá upphafi, þá lifir Stjarnan víst áfram, hvað viltu segja um liðið í dag og er framtíðin björt, styttist í næsta Íslands- og bikar-meistaratitili? ,,Já, framtíðin er klárlega björt og ég er ánægður með markmið Stjörnunnar í dag, að Evrópusætið sé lágmark,” segir hann að lokum og bætir við: ,,Ég hlakka til að mæta á leiki í framtíðinni og fylgjast með liðinu,” segir þessi frábæri knattspyrnumaður, goðsögn í Garðabæ.

Forsíðumynd. Danni lyftir Íslandsmeistarabikarinn í Kaplakrika fyrir árið 2014.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar