Gleðidagar í Urriðabóli

„Það var ofsalega gaman hversu margir gáfu sér tíma til að koma og skoða leikskólann, börnin voru fljót að finna sér stað í húsinu og á leikvellinum,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri. Á opið hús í Urriðabóli sl. laugardag komu fjölmargir og nutu þess í sól og blíðu að skoða nýjasta leikskóla Garðabæjar. Hulda Jónsdóttir, arkitekt hússins var á svæðinu ásamt bæjarstarfsmönnum, bæjarstjóra, Ragnheiði Gunnarsdóttur leikskólastjóra og Guðmundi Péturssyni, stjórnarformanni Skóla sem rekur Urriðaból.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri og Margrét Bjarnadóttir, formaður leikskólanefndar klipptu á borða og vígðu skólann.

Sungu fyrir gesti

Urriðaból við Holtsveg var formlega opnað 29. febrúar sl. Þá klipptu þau Almar og Margrét Bjarnadóttir, formaður leikskólanefndar á borða og vígðu skólann. Leikskólabörn á Urriðabóli við Kauptún komu á opnunina og sungu fallega fyrir gestina og aðstoðuðu við borðaklippingu. Ákvörðun var þó tekin um að afmæli starfsstöðvarinnar yrði 1. mars og því hægt að fagna því árlega.

Leikskólinn er 1400 fm2 og Svansvottaður

Vegferð Urriðabóls við Holtsveg var sú að árið 2021 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu á nýjum leikskóla í Urriðaholti.

Skólinn er nú fullbyggður og er byggingin 1400 fm2 og Svansvottuð.  HuldaJóns Arkitektúr, sastudio og exa nordic hönnuðu leikskólann út frá vinningstillögu í hönnunarsamkeppninni og Þarfaþing ehf. 

Til að mæta þeim mikla barnafjölda sem býr í Garðabæ og þá sérstaklega Urriðaholti var Urriðaból við Kauptún reist og tók til starfa haustið 2022 á vegum Skóla ehf. Mánahvoll við Vífilsstaði tók til starfa árið 2021 og hefur einnig gegnt lykilhlutverki í að mæta barnafjölskyldum í bænum.

Garðabær og Skólar hafa nú gert með sér samning um áframhaldandi starf leikskólans Urriðabóls, sem nú verður rekinn sem 12 deilda leikskóli með tvær starfstöðvar fyrir börn frá 1 árs til sex ára. „Vel hefur gengið að manna Urriðaból við Holtsveg og eru tvær deildir full mannaðar og sú þriðja á lokametrunum. Hann verður að fullu kominn til starfa áður en við vitum af,“ segir Almar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar