Hópur fótboltasnillinga sem æfir með Öspinni/Stjörnunni skellti sér til Svíþjóðar dagana 6.-10. febrúar og tók þátt á Malmö Open. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem fótboltalið á vegum Asparinnar/Stjörnunnar fer á Malmö Open en mótið hefur verið haldið frá árinu 1977 og er keppt í mörgum mismunandi íþróttagreinum. Ferðin sem var full af gleði, samstöðu og ótrúlegum augnablikum sýndi að fótbolti er svo sannarlega fyrir alla. Á vellinum sáust margir persónulegir sigrar og liðsandinn var eins og hann gerist bestur. Á hliðarlínunni voru svo magnaðir foreldrar og fylgdarmenn sem studdu sitt lið alla leið.

Einungis 4% fatlaðra barna sautjána ára og yngri æfa íþróttir
Samstarf Asparinnar og Stjörnunnar hófst veturinn 2023 og er guðmóðir verkefnisins Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir knattspyrnukona. Hópurinn æfir tvisvar sinnum í viku, í Sjálandsskóla á miðvikudögum og í Miðgarði á sunnudögum. Í dag eru iðkendur um 40 talsins og næsta verkefni hópsins verða Íslandsleikarnir á Selfossi dagana 29.-30. mars. Er það liður í samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF sem kallast „Allir með“. Á Íslandi eru einungis 4% fatlaðra barna sautjána ára og yngri að æfa íþróttir innan íþróttahreyfingarinnar. Framtíðarsýnin er sú að fötluð börn hafi tækifæri á að æfa íþróttir í sínu hverfisfélagi.
Íslandsleikarnir eru fyrir þá sem finna sig ekki í hefðbundnu íþróttastarfi og eða eru með stuðningsþarfir. Á leikunum er keppt í fimm íþróttagreinum fótbolta, körfubolta, handbolta, fimleikum og frjálsum. Einnig verða opnar æfingar í þessum sömu greinum sem öllum er frjálst að mæta í.
Hægt er að skrá lið en einstaklingar geta líka skráð sig og verða þá settir í lið. Leikarnir eru fyrir iðkendur á öllum aldri. Gisting í boði í skólastofum föstudags- og laugardagskvöld. Þátttökugjald kr. 5.000 (mótsgjald, gisting, morgunmatur, hádegismatur, bolur, pitsuveisla) skráning opnar 1. mars og fer fram í gegnum Abler. Sundlaugaparty, leikir og fleira.



