Gjaldfrjálsar skólamáltíðir – Sérstök áhersla lögð á að stemma stigu við matarsóun

Á fundi bæjarráðs var farið yfir minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til sveitarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir á árunum 2024-2027.

Vísað er til viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 7. mars 2024, sem hafði það að markmiði að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði. Ein af þeim aðgerðum sneri að því að útfæra leið til að skólamáltíðir gunnskólabarna verði gjaldfrjálsar á árunum 2024-2027. 

Ríkið greiðir 75% og Garðabær 25%

Viljayfirlýsingin gerir ráð fyrir að ríkið greiði 75% af kostnaðarþátttöku forráðamanna vegna skólamáltíða og sveitarfélögin 25%. Gert er ráð fyrir að við tekjur Jöfnunarsjóðs bætist árlegt framlag úr ríkissjóði sem Jöfnunarsjóður úthlutar til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum börnum í grunnskóla upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. 

Bæjarráð hefur samþykkt á grundvelli viljayfirlýsingarinnar, að vinna drög að verkferlum innan bæjarins sem geri ráð fyrir gjaldfrjálsum skólamáltíðum skólaárið 2024-2025. Sérstaka áherslu skal leggja á að stemma stigu við matarsóun og að raunkostnaður við máltíðir og hlutdeild ríkis og sveitarfélags við kostnaðinn verði aðgengilegur.

Bæjarráð vísar málinu til sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs og bæjarstjóra til frekari útfærslu og til frekari umræðu og samþykktar bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar