Gildi leiksins – Flæði á Bæjarbóli

Leikur er meginnámsleið barna. Í Aðalnámskrá leikskóla frá árinu 2011 kemur fram að leikurinn skapi börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt. Þau tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar ásamt því að þróa félagsleg tengsl við önnur börn. Börn sem leika sér saman mynda félagslega hópa og skapa eigin menningu. Hlutverk leikskólans er að styðja við nám barna í gegnum leik á sem fjölbreyttastan hátt, bæði inni og úti. Á Bæjarbóli er lögð áhersla á að umhverfið sé í ákveðnu skipulagi, deildirnar eru svæðaskiptar með fjölbreyttum efnivið. Leitast er við að gefa leik barna tími og rými í samfellu við aðra þætti.

Undanfarin ár hefur verið boðið upp á flæði á milli deilda einu sinni í mánuði. Í gegnum flæðið öðlast börnin aukið sjálfstæði í leiknum þar sem þau hafa aðgengi að bæði fjölbreyttum leiksvæðum og margskonar leikefni til að velja um. Þau fá tækifæri til að fara á aðrar deildar, hitta systkini sín og annað starfsfólk.

Vegna Covid hefur því miður þurft að fella flæðið niður ansi oft til að blanda ekki saman hópum. Það var því mikil ánægja að geta loksins boðið börnunum upp á að flæða á milli deilda núna í marsmánuði. Ákveðið var að leggja áherslu á leikefni sem býður upp á fjölbreytta skynjun til að mynda að vatnslita snjó, leikur með klaka, leikur með ljós og skugga, að finna lykt úr krukku, núvitundarherbergi, hljóðfæri, slímleir, sand, áferð að stíga á og fótanudd. Að sjálfsögðu var margt fleira í boði og börnin höfðu gríðarlega ánægju af flæðinu sem stóð yfir í 90 mínútur.

Anna Bjarnadóttir Leikskólastjóri

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar