Getur skapað hættu þegar gangandi og hjólandi umferð er þröngvað út á götu vegna gróðurs

Smári Guðmundsson, garðyrkjustjóri Garðabæjar hvetur lóðarhafa til að huga að gróðri á lóðarmörkum.
,,Trjá- og runnagróður sem vex út fyrir lóðarmörk eða slútir yfir getur þrengt að umferð á götum, gangstéttum eða stígum og getur hindrað snjómokstur á gangstéttum og stígum,“ segir Smári sem fór yfir og kynnti árlega könnun garðyrkjudeildar á trjágróðri á lóðarmörkum á síðasta fundi umhverfisnefndar Garðabæjar.

En hvernig eru Garðbæingar að standa sig þegar kemur að þessum málum? ,,Yfir höfuð eru Garðbæingar til fyrirmyndar í þessu, en það er því miður á nokkrum stöðum þar sem þeir þurfa að bæta sig. Þetta á sérstaklega við á þröngum göngustígum sem og í einstaka tilfellum þar sem tré eru búin að taka yfir gangstéttir.”

Og þetta getur skapað ákveðna hættu þegar trjágróður þrengir að götum og gangstéttum? ,,Já heldur betur, sérstaklega þar sem gangandi og hjólandi umferð er þröngvað út á götu vegna gróðurs,” segir Smári.

Verktakar sendir á kostnað eigenda?

Kemur til greina og getur bærinn áminnt eða sektað bæjarbúa sem klippa ekki trjágróður sinn, sem er komin langt út fyrir lóðarmörk? ,,Ekki hefur komið til þess að því úrræði hafi verið beitt að senda verktaka á kostnað eigenda en það er líklega eina úrræðið sem dugar eftir ítrekaðar ábendingar,” segir hann og bætir við: ,,Tilgangurinn með að senda póst á lóðarhafa er að gera ábendingar í góðri sátt með hvað betur má fara, það er ekki vilji garðyrkjustjóra að vera í stríði við íbúa bæjarins. Í mörgum tilvikum getur verið slysahætta, hætta á skemmdum og eða skert þjónusta við bæjarbúa bæði á sumrin og veturna.”

Er einhver ein ákveðin gata eða hverfi sem stendur sig áberandi verst þegar kemur að þessu? ,,Nei ekki viljum við meina það, þetta er einstaka lóðir svona hér og þar.”

Geta bæjarbúar keypt þessa þjónustu af bænum, þ.e.a.s. að þeir mæti, klippi og fjarlægi trjágróður sem stendur út fyrir lóðarmörkin? ,,Nei, bærinn selur ekki út vinnu til klippinga en hins vegar eru til ótal verktakar og fyrirtæki sem eru mjög dugleg í klippi og lóðavinnu,” segir Smári að lokum sem hvetur bæjarbúa til að klippa trjá- og runnagróður sem vex út fyrir lóðarmörk.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar