Árið sem var að líða hefur verið ár grósku og fólksfjölgunar fyrir Garðabæ. Nú sér fyrir endann á uppbyggingu í nýjasta hverfinu, Urriðaholti, og glittir í næstu uppbyggingu í Vetrarmýrinni. Það er vissulega gott að búa í Garðabæ og því engin furða að fólk á öllum aldri og ekki síst ungt fólk, skuli sækjast eftir búsetu hér.
Ungar fjölskyldur hafa komið annars staðar frá vegna þess orðspors sem Garðabær hefur þegar kemur að þjónustu við barnafjölskyldur. Leikskólapláss að loknu fæðingarorlofi hefur hingað til verið auðfengið, sem skiptir sköpum fyrir unga foreldra.
En nú er tíðin önnur og veruleikinn sem blasir við ungu fjölskyldufólki ekki svo glæstur. Meirihlutanum hefur því miður mistekist að halda í horfinu og fylgja íbúaþróuninni eftir. Þau mistök hafa komið mörgum fjölskyldum mjög illa. Við getum öll sett okkur í spor ungra foreldra, þegar þeir þurfa að snúa aftur til vinnu eftir fæðingarorlof, en ekkert úrræði er í boði fyrir barnið. Slæm forgangsröðun meirihlutans hefur skapað þennan vanda, hann hefur kosið að halda að sér höndum, stinga höfðinu í sandinn og vonast til að málið einfaldlega reddist. Samt hlýtur það að vera skylda kjörinna fulltrúa að standa með barnafjölskyldum, taka nýjum íbúum fagnandi og byggja upp mikilvæga þjónustu um leið og hennar er þörf.
Fjárhagsáætlun Garðabæjar ber með sér að sveitarfélagið stendur vel fjárhagslega og hefur allar forsendur til þess að gera vel í leikskólamálum. Það er engin afsökun sjáanleg fyrir þeim hringlandahætti sem nú fær að ráða og veldur barnafjölskyldum streitu og álagi.
Árið 2022 verður ár breytinga hjá okkur sem höfum gefið kost á okkur til að standa vörð um þjónustu íbúa og uppbyggingu samfélagsins hér í Garðabæ, þar sem sveitarstjórnarkosningar fara fram á komandi vori.
Við sjáum nú þegar vísi að fyrstu breytingum. Leiðir skilja hjá Viðreisn og Garðabæjarlistanum, þar sem Viðreisn hefur ákveðið að bjóða fram í eigin nafni. Við höfum líka fengið þær fréttir að núverandi bæjarstjóri ætlar að hverfa af vettvangi. Tími breytinga er tími tækifæri og Viðreisnarfólk sér fjölda tækifæri til að gera enn betur í þágu velsældar allra íbúa Garðabæjar.
Við viljum byggja upp samfélag sem tryggir velferð allra. Sem tryggir velferð barnafjölskyldna, byggir á góðum grunni betri þjónustu til framtíðar með öflugri uppbyggingu leik- og grunnskóla í takt við íbúaþróun í nýjum hverfum. Við viljum bjóða upp á framúrskarandi aðstöðu þeirra sem starfa í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins, hlúa að líðan þeirra og grípa til aðgerða vegna gríðarlegs álags sl. tvö ár þar sem allt starfsfólk hefur sýnt dug og seiglu í mjög krefjandi aðstæðum.
Við viljum bjóða upp á framúrskarandi námsumhverfi fyrir börn og ungmenni með m.a. fjárfestingu í tækni og velferð.
Við höfum líka tækifæri núna til þess að bjóða fleiri fötluðum einstaklingum búsetu í Garðabæ og jafnframt taka okkur stöðu í fremstu röð við úthlutun félagslegs húsnæðis.
Fjárhagsstaðan er sterk, en við þurfum að forgangsraða í þágu velsældar íbúanna. Gagnsæi í ákvörðunum tryggir að almannahagsmunir ráði för.
Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á nýju ári, með von um að þið leggist á árarnar með okkur sem viljum gera góðan bæ enn betri.
Sara Dögg Svanhildardóttir
Bæjarfulltrúi