Garðbæingar heilluðu Asíubúa með dansfimi sinni

Garðbæingarnir Alex Gunnarsson og Ekaterina Bond gerðu sér lítið fyrir og sigruðu China Open World Cup sem haldin var í Shenzhen í Kína helgina til 23. júlí sl.

Þetta er 3. mótið sem þau vinna í Asíu á stuttum tíma. Hin mótin voru World Cup Dance Championship sem haldið var í Taipei/Taiwan og Beijing International Ballrom Championship. Það má því með sanni segja að dansparið hafi heillað Asíubúa með dansfimi sinni.

Alex hefur dansað frá þriggja ára aldri og verið í fremstu röð bestu dansara heims frá unga aldri. Það er gaman að segja frá því að þegar hann var 14 ára fór hann til Úkraínu til að taka þátt í móti og sagði þá í viðtali við Morgunblaðið að hann ætlaði að verða bestur í dansi, en ferill Alex og Ekaterinu hefur verið stórglæsilegur á undanförnum árum. Þau hafa verið í 1. eða 2. sæti á öllum mótum sem þau hafa tekið þátt á þetta keppnistímabil. Þau hafa verið í öðru sæti á HM tvö ár í röð og í öðru sæti á Blackpool dancefestival tvö ár í röð. Blackpool dancefestival er stærsta og virtasta mót heims. Alex og Ekaterina æfa með Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar.

Það er svo margt spennandi framundan hjá dansparinu en þau taka m.a. þátt á International Championship sem haldin er í The Royal Albert Hall í október. Það er ein flottasta og virtasta danskeppni heims. Einnig er HM og The Dutch Open framundan.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar