Garðaskóli – Uppbyggjandi unglingasamfélag – kynningar í grunnskólum Garðabæjar

Innritun nemenda í grunnskóla Garðabæjar í 1. bekk (f. 2017) og 8. bekk (f. 2010) og fer fram dagana 1. – 10. mars. Innritað er á þjónustugátt Garðabæjar.

Kynningar í grunnskólum

Grunnskólarnir í Garðabæ bjóða í heimsókn og verða með opin hús/kynningar í húsnæði skólanna. Gestum gefst þá kostur á að skoða skólana í fylgd starfsmanna og/eða nemenda. Allir grunnskólarnir bjóða foreldrum og forráðamönnum einnig að koma í heimsóknir á öðrum tíma. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu skólanna sé óskað eftir því. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að skoða vefsíður skólanna. Þar má finna gagnlegar upplýsingar og margskonar fróðleik um skólastarfið.

Opið hús/kynningar verða Garðaskóla fimmtudaginn 9. mars, kl: 17:00–18:00 og 20:00-21:00 í Flataskóla

Jóhann Skagfjörð, skólastjóri

Í Garðaskóla stunda rúmlega 620 nemendur nám í 8.-10. bekk. Markmið okkar er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi og stuðla að alhliða þroska og vellíðan nemenda í samstarfi við heimilin. Leiðarljós okkar í þeirri vinnu eru gildi skólans; frelsi, ábyrgð, vellíðan og árangur.
Í Garðaskóla starfar öflugur hópur fagfólks sem hefur valið sér að vinna með unglingum og hefur reynslu á því sviði. Kennarar kenna að jafnaði eingöngu sína faggrein sem gerir það að verkum að í hverju fagi fá nemendur kennara sem er sérfræðingur á sínu sviði.

Við störfum eftir hugmyndafærði Uppbyggingar sjálfsaga. Í því felst að nemendum er leiðbeint og kennt að bera ábyrgð á eigin hegðun. Öll geta gert mistök en áskorunin felst í því að læra af þessum mistökum og hvernig á að koma í veg fyrir að þau gerist aftur. Áhersla er lögð á góð samskipti milli starfsfólks og nemenda svo hægt sé að leysa vandamál á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Við trúum því að helsta forsendan fyrir árangri í námi sé vellíðan.

Félagsmiðstöðin Garðalundur er staðsett í skólanum og er félagslíf nemenda skipulagt þaðan. Skólinn og félagsmiðstöðin eiga í nánu samstarfi og vinna saman að því að fylgjast með velferð unglinganna. Garðalundur er með almenna opnun þrjú kvöld í viku en að auki eru starfrækt sértækt hópastarf. Einnig skipuleggur Garðalundur ýmis konar félagsstarf á skólatíma í samstarfi við skólann.

Í 8. bekk röðum við nemendum í umsjónarhópa þar sem lögð er áhersla á að blanda þeim eins mikið og hægt er. Öll fá þó tækifæri til að óska eftir þremur bekkjarfélögum og getum við lofa því að öll fái a.m.k. eina ósk uppfyllta. Við leggjum áherslu á að taka vel á móti nýnemum, kenna þeim vinnubrögð skólans og leyfa þeim að njóta þess frelsis og fjölbreytileika sem skólinn og Garðalundur bjóða upp á.

Nemendur eru í sama umsjónarhóp öll árin sín í skólanum. Í 8. bekk eru nemendur með sínum umsjónarbekk í öllum fögum á meðan þau eru að ná félagslegri fótfestu í skólanum. En í 9. og 10. bekk fær hver og einn nemandi sérsniðna stundaskrá sem líkja má við fjölbrautakerfi framhaldsskóla. Eldri nemendur hitta þó sinn umsjónarbekk og umsjónarkennara á hverjum degi í yndislestri og í einum umsjónartíma á viku.

Í 9. og 10. bekk eykst frelsi nemenda til að hafa áhrif á nám sitt. Í mörgum kjarnafögum er þeim skipt upp í getuskipta hópa svo að hver og einn fái nám og kennslu við hæfi. Að auki geta nemendur valið úr yfir 40 valáföngum sem kenndir eru við skólann. Til að auka enn á fjölbreytni valsins hefur skólinn átt í áralöngu farsælu samstarfi við GKG og Tónlistarskólann. Samstarf Garðaskóla og FG er einnig rótgróið og geta nemendur sem standa vel að vígi í námi hafið framhaldsskólanám í ensku, íslensku og/eða stærðfræði strax í 10. bekk.
Umsjónarkennarar, námsráðgjafar og deildarstjórar fylgjast stöðugt með námi, samskiptum og líðan nemenda. Brugðist er við eftir þörfum en einnig eftir óskum nemenda og/eða forráðafólks og margvíslegum úrlausnum beitt eftir því hvað hentar hverju sinni. Öflugt námsver er við skólann og starfsfólk þess vinnur náið með fagkennurum og stjórnendum að því að mæta þörfum hvers nemanda og veita þann stuðning sem þörf er á.

Í Garðaskóla er öflugt og uppbyggjandi unglingasamfélag með hæfum hópi starfsfólks sem tekur vel á móti öllum nemendum.

Jóhann Skagfjörð, skólastjóri

Opið hús/kynningar verða í Garðaskóla fimmtudaginn 9. mars, kl: 17:00–18:00 og 20:00-21:00

Sími 590 2500,

netfang: [email protected]

gardaskoli.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar