Garðaskóli sigraði í forritunar- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League Ísland

Liðið Ragga´s Angels úr Garðaskóla í Garðabæ gerði sér lítið fyrir og sigraði í forritunar- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League Ísland sem fram fór í Háskólabíói sl. laugardag.

Liðið sigraði í vélmennakappleiknum, hlaut viðurkenningu fyrir besta hönnun og forritun á vélmenni og var í 2.-3. sæti með nýsköpunarverkið sitt. En þessi árangur skilaði liðinu sigri í heildarkeppninni. Virkilega vel gert hjá liðsmönnum Ragga´s Angels úr Garðaskóla!

Um leið vann lið Garðaskóla sér inn þát tökurétt í norrænum keppnum FIRST LEGO League og mun liðið keppa í Óðinsvé í Dan-mörku 24.-25. nóvember.

Það voru ríflega 100 grunnskólanemar á aldrinum 10-15 ára úr 16 grunnskólum alls staðar af landinu tóku þátt í hinni árlegu keppni og því sigurinn hjá Ragga´s Angels enn glæsilegri, en First Lego League Challenge hefur verið haldin af Háskóla Íslands síðan árið 2005.

Það er Háskóli Íslands sem heldur utan um keppnina en markmið hennar er að auka áhuga ungs fólks á tækni og vísindum og efla færni og lausnarmiðaða hugsun. Í keppninni reynir á nýsköpunarhugsun og samskipta- og samstarfshæfni liða en um leið er ætlunin að byggja upp sjálfstraust ungs fólks.

Að baki sigri Ragga´s Angels liggja þrotlausar æfingar og vinna. ,,Þau hafa æft unnið við verkefnið að meðaltali 4 tíma á viku frá því í haust og svo var aðeins bætt í rétt fyrir keppni,” segir Ragnheiður Stephensen kennarinn þeirra en hún kennir einnig stærðfræði við skólann.

Liðsmenn Ragga´s Angels eru allir þátttakendur í valgreininni Forritunar- og hönnunarkeppni grunnskóla sem er í boði fyrir nemendur í 10. bekk Garðaskóla en einnig er í boði valgrein fyrir 9. bekk þar sem nemendur geta lært að vinna með vélmennið og æft sig í að leysa þrautir. Eins og áður segir leiðir Ragnheiður Stephensen þetta starf.

Marel og Lemon styrktu liðið til þátttöku í keppninni hér heima með búningum og mat. Liðið fékk svo 200.000 kr. ferðastyrk frá HÍ fyrir sigurinn til að taka þátt í keppninni úti og svo mun Marel einnig styrkja liðið með ferðastyrk. Það er mikill kostnaður sem fellst í því að taka þátt í svona keppni og erfitt fyrir skóla að standa í þeim rekstri án styrkja utanaðkomandi aðila.

Þema ársins 2023 var MASTERPIECE (MEISTARAVERK) – Notaðu ímyndunaraflið til að endurhugsa listheiminn!
Í MASTERPIECE áskoruninni áttu FIRST LEGO League liðin að kanna listheiminn; hvaðan list er sprottin og hvernig henni er miðlað – þá beittu þau aðferðum rannsókna og nýsköpunar við að finna nýjar leiðir til að skapa og miðla list um heim allan.

First Lego League eða FLL er afrakstur samstarfsmilli FIRST® og LEGO® Group. Árið 1998 tóku Dean Kamen, stofnandi FIRST og Kjeld Kirk Kristiensen frá LEGO® Group saman höndum og stofnuðu FIRST LEGO keppnina, öflug keppni sem býður börnum upp á gáskafullt en innihaldsríkt nám um leið og þeim er hjálpað til að uppgötva þá skemmtun sem hafa má af vísindum og tækni.

Grunngildi FLL keppninnar eru:
Uppgötvun: Við könnum nýja færni og hugmyndir.
Nýsköpun: Við nýtum sköpunarkraft og þrautseigju við lausn vandamála.
Áhrif: Við nýtum það sem við lærum til að bæta heiminn.
Þátttaka: Við berum virðingu fyrir hvert öðru og fögnum fjölbreytileikanum. Teymisvinna: Við erum sterkari þegar við vinnum saman.
Skemmtun: Við höfum gaman og fögnum því sem við gerum!
Í hverju liði eru 4-10 liðsmenn og a.m.k. einn fullorðinn leiðbeinandi.

Hvert lið:

• hannar og forritar LEGOþjark (vélmenni) sem leysir þrautir ársins í vélmennakapphlaupi. • tekur þátt í nýsköpunarverkefni með því að kanna og leysa raunveruleg vandamál sem tengjast viðfangsefni (þema) hvers árs.
• byggir upp góðan liðsanda og keppnisanda.

First Lego League er alþjóðleg Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim.

Á myndinni eru frá vinstri:  Matthias Book (yfirómari keppninnar og starfsmaður HÍ), Högna Þóroddsdóttir, Ágúst Fannar Einarsson, Kjartan Páll Kolbeinsson, Jón Kári Smith, Benedikt Aron Kristjánsson, Helen Silfá Snorradóttir, Sóley Edda Ingadóttir og Ragna Skinner (yfirskipuleggjandi keppninnar og starfsmaður HÍ)

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar