Garðabær vill taka á móti flóttafólki frá Úkraníu

Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var lögð fram eftirfarandi tillaga um móttöku flóttafólks frá Ukraníu, sem bæjarstjórn vísaði til umfjöllunar og afgreiðslu bæjarráðs.

,,Bæjarstjórn staðfesti á síðasta fundi sínum vilja Garðabæjar til þess að taka þátt í verkefninu og taka á móti flóttafólki frá Úkraínu. Hafinn er undirbúningur fyrir móttöku flóttafólks að hálfu ríkisins og mörg sveitarfélög þegar látið vita af vilja sínum til þátttöku í verkefninu. Garðabær er ríkt samfélag og það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að styðja við fólk í neyð líkt og nú ríkir í Úkraínu.“

Bæjarráð samþykkti á fundinum að fela Gunnar Einarssyni bæjarstjóra að afla upplýsinga og eiga viðræður við viðkomandi ráðuneyti um fyrirkomulag á móttöku á flóttafólki frá Úkraínu. Jafnframt skal haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga sem hefur farið fram á endurskoðun á samstarfssamningi við ríkið um móttöku flóttafólks.

Bæjarráð tekur undir samþykkt stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem samþykkt var einróma á fundi sem haldinn var 25. febrúar sl. en þar er tekið undir yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, um að evrópskir sveitarstjórnarmenn fordæmi brot á sjálfstæði og sjálfræði Úkraínu og lýsi yfir stuðningi og samstöðu með sveitarfélögum í Úkraínu og íbúum þeirra. Stjórn sambandsins hvetur kjörna fulltrúa í íslenskum sveitarfélögum til að undirrita yfirlýsinguna.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar