Garðabær verður áfram með hóflegt útsvar og með lægsta útsvar 10 stærstu sveitarfélaga landsins

Frumvarp að fjárhagsáætlun Garðabæjar var lagt fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn sl. fimmtudag. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Garðabæ þá stendur bærinn vel fjárhagslega. Skuldaviðmið er lágt og vel undir opinberum viðmiðunarmörkum, en hefur hækkað samhliða vexti bæjarins undanfarin ár. Með hækkandi vöxtum og verðbólgu hafa fjármagnsgjöld einnig hækkað. Í fjárhagsáætlun er meðal annars brugðist við krefjandi efnahagsaðstæðum, hárri verðbólgu, háum vöxtum og kjarasamningsbundnum launahækkunum.

Áhersla er lögð á aðgerðir til að styrkja grunnrekstur bæjarins (í A sjóði) annars vegar með hagræðingu í rekstri og hins vegar með hærra álagningarhlutfalli útsvars. „Garðabær gengur nú í gegnum miklar breytingar á sama tíma og óvissa er á lofti í efnahagsmálum. Það þarf að takast á við þessa stöðu af ábyrgð og það gerum  við  með framlagningu  þessarar  fjárhagsáætlunar,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Horft til framtíðar

„Það er einfaldlega svo að við viljum búa í haginn fyrir framtíðina og standa vörð um trausta fjárhagsstöðu bæjarins. Það er mikilvægt að þó Garðabær standi vel þá er það skylda okkar að laga reksturinn að breyttum  forsendum  og  þeim  efnahagsaðstæðum sem blasa við. Það höfum við áður gert með góðum árangri, og staðið þannig vörð um hátt þjónustustig og lífsgæði fyrir íbúa í bænum.“

Skuldir aukast um 2,8 ma.kr

Frumvarp til fyrri umræðu fjárhagsáætlunar gerir ráð fyrir að tekjur bæjarins verði  28.584  ma.kr.  á  árinu  2024. Rekstrarniðurstaða A sjóðs verður neikvæð um 83 m.kr. en samanlögð niðurstaða A og B sjóðs jákvæð um 579 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 2,3 ma.kr. eða 8,2% af tekjum. Skuldir munu aukast um 2,8  ma.kr.  Skuldaviðmið verður 109% skv. áætluninni.

Áhersla á hægræðingu og dregið úr framkvæmdum

Í áætluninni er lögð áhersla á aðlögun á rekstri A sjóðs með ýmsum aðgerðum. Gert er ráð fyrir hagræðingaraðgerðum s.s. með hagkvæmari innkaupum og með aukinni áherslu á stafræna umbreytingu.

Þá verður gerð almenn hagræðingarkrafa á allan rekstur. Áætlunin gerir ráð fyrir að útsvarshlutfall hækki í 14,48%, sem verður eftir sem áður (lang)lægsta útsvarshlutfall á meðal stærri sveitarfélaga. Fasteignagjöld á íbúa verða þó ekki hækkuð umfram verðlag. Áætlað er að aðgerðir til að bæta  rekstur A sjóðs muni  skila  ríflega  einum milljarði króna í rekstrarbata.

Í  ljósi  erfiðari  efnahagsaðstæðna  verður  dregið úr framkvæmdum á vegum sveit-arfélagsins en þó þannig að mikilvægar nýframkvæmdir og endurbætur á skólahúsnæði munu njóta forgangs eins og á yfirstandandi ári.

Hraður vöxtur

„Garðabær hefur vaxið hratt á undanförnum árum og við  sjáum að samfélagið okkar er að yngjast ef svo má að orði komast. Bærinn er barnmargur í samanburði við flest önnur sveitarfélög af svipaðri stærð og því fylgir aukin þjónusta sem við höfum kappkostað að  sinna  vel.  Barnafjöldinn gerir okkur að fjölbreyttara og skemmtilega  samfélagi. Við höfum  lagt  áherslu á að umhverfið sé gott og barnvænt, til dæmis með fjölda leikvalla, sterku skólasamfélagi á öllum stigum og fram- úrskarandi íþróttaumgjörð,“ segir Almar.

Líkt og á við um önnur sveitarfélög vega velferðarmál þungt í fjárhagsáætlun Garðabæjar. Þá þarf að ljúka samkomulagi um fjármögnun verkefna sem ríki og sveitarfélög semja um sín á milli. Þá eru framkvæmdir  tengdar  uppbyggingu  og  endurnýjun hverfa talsvert fjárfrekar.

Ætlum að vera áfram traust og blómlegt sveitarfélag sem veitir íbúum framúrskarandi þjónustu

„Við lögðum mikla áherslu á endurbætur á húsnæði á síðasta ári sem hefur skilað sér í umtalsvert betra  skólahúsnæði í eldri skólum bæjarins. Samhliða því erum við að reisa næstu áfanga Urriðaholtsskóla og nýjan leikskóla í Urriðaholti. Slík innviðauppbygging tilheyrir vaxandi samfélagi. Garðabær auglýsir nú byggingarrétt í Hnoðraholti til sölu næstu og svarar þannig enn á ný ákalli um aukið framboð á  húsnæði  og  ekki  hvað  síst  sérbýli,” segir Almar og bætir við: „Við ætlum að vera áfram traust og blómlegt sveitarfélag sem veitir íbúum framúrskarandi þjónustu. Því grípum við líka inn í á réttu augnabliki. Með framlagðri fjárhagsáætlun erum við að sýna ábyrgð í rekstri, sláum aðeins af hraðanum í sókninni en erum samt  enn að sækja fram með grandvörum og traustum hætti.“

Garðabær með lægsta útsvarið hjá öllum sveitarfélögum með yfir fimm þúsund íbúa

Garðapósturinn ræddi svo nánar við Almar um fjárhagsáætlunina fyrir árið 2024

Þið eruð að hækka útsvarshlutfallið í 14,48%, en Garðabæ hefur verið þekktur fyrir að vera hálfgerð skattaparadís hvað þetta varðar miðað við önnur sveitarfélög. Er Garðabær ekki lengur þessi ,,skattaparadís” sem hefur verið talað um? ,,Jú, það verður ekki annað sagt, Garðabær verður áfram með hóflegt útsvar og með lægsta útsvar 10 stærstu sveitarfélaga landsins og lægsta útsvarið hjá öllum sveitarfélögum með yfir fimm  þúsund íbúa,” segir Almar.

Við viljum ekki sækja í vasaskattgreiðenda nema það sem þarf til þess að reka gott sveitarfélag

Kom til greina að hækka hlutfallið enn frekar, fara með það í hámarkið, 14,74%? ,,Nei enda gerist þess ekki þörf. Við sjáum möguleika í því að hagræða samhliða  hóflegri hækkun  útsvars  til  að  verja grunnrekstur bæjarins. Auðvitað vonumst við til þess að þessar aðgerðir muni skila góðum árangri. Það er okkar háttur að hugsa um þessar krónur þannig að þær fari betur í vasa íbúa en í sjóðum bæjarins. Ef okkur gengur vel finnst okkur sjálfsagt að skila því til baka. En við verðum að fara í gegnum þessa óvissu tíma áður en við sláum  því  föstu. Það breytir því ekki að Garðbæingar þekkja okkar pólitík. Við viljum ekki sækja í vasa skattgreiðenda  nema það se  þarf til þess að reka gott sveitarfélag með góða og nauðsynlega þjónustu fyrir íbúa.”

Og svo eru það blessuð fasteignagjöldin, það kemur fram í fjárhagsáætluninni að þau verði ekki hækkuð um-fram verðlag. Hvað þýðir það í raun fyrir fasteignaeigendur í Garðabæ, hver verður hækkunin og verður þetta flöt prósentuhækkun á alla óháð fasteignamati? ,,Miðað er við óbreytt álagn- ingarhlutfall  fasteignaskatta í Garðabæ. Varðandi fasteignagjöld í heild, þá tölu sem fólk þekkir á greiðsluseðlinum sínum, þá höldum við áfram á þeirri vegferð að hækkun gjaldanna verði ekki hærri en sem nemur verðlagsbreytingum.”

Það verður dregið úr framkvæmdum í ljósi erfiðara efnahagsaðstæðna, um hvað erum við að tala og hverjar verða stærstu framkvæmdirnar árið 2024? ,,Stærstu framkvæmdirnar verða annars vegar 2. og 3. áfangi Urriðaholtsskóla og hins vegar gatna og gangstéttaframkvæmdir, vinna við vatnsveitu og fráveitu og  þá  eru 750 milljónir eyrnamerktar endurbótum á skólalóðum og skólamannvirkjum í Garðabæ.”

Staðan í Garðabæ er mjög góð miðað við önnur sveitarfélög á landsvísu

Skuldir munu aukast um 2,8 milljarða 2024 samkvæmt áætluninni og skuldaviðmið Garðabæjar fer 109%, en það má mest fara í 150%. Sérðu skuldir og skuldaviðmið bæjarins hækka enn frekar á næstu árum eða er markmiðið að ná því fljótt niður? ,,Staðan í Garðabæ er mjög góð miðað við önnur sveitarfélög á landsvísu. Skuldaviðmið er lágt og vel undir opinberum viðmiðunarmörkum, en hefur  hækkað  samhliða  vexti  bæjarins undanfarin ár. Með hækkandi vöxtum og verðbólgu hafa fjármagnsgjöld  einnig  hækkað. Markmiðið er auðvitað að lækka skuldahlutfallið úr góðri stöðu, í enn betri. Þetta sést þegar þriggja ára áætlun til ársins 2027 er skoðuð og einnig búum við að því að miklar fjárfestingar í gatnagerð undanfarið munu  skila sér með samsvarandi gatnagerðatekjum sem hefur jákvæð áhrif á skuldastöðuna.”

Því fylgir annars konar kostnaður en líka ágóði fyrir bæinn

Garðabær er barnmargur í samanburði við flest önnur sveitarfélög af svipaðri stærð og því fylgir aukin þjónusta. Hefur þetta mikil áhrif á rekstur bæjarins og fjárhagsáætlunina, kostnaðarsamt en gleðilegt engu að síður? ,,Því fylgir annars konar kostnaður en líka ágóði fyrir bæinn, meðal annars í félagsauð sem við getum verið einstaklega stolt af. Barnmargur bær gerir lífið  fjölbreyttara og skemmtilegra, það  heldur okkur á tánum í að þróa þjónustuna okkar, gerir skólana sterkari og umhverfi Garðabæjar einnig. Þetta þýðir að það þarf að hanna og skipuleggja hverfin vel með því að horfa til þjónustu sem  barnafjölskyldur þurfa. Við höfum lagt áherslu á að umhverfið sé gott og barnvænt, til dæmis með fjölda leikvalla, sterku skólasamfélagi á öllum stigum og framúrskarandi íþróttaumgjörð.”

Garðabær ver 3.818 m.kr í velferðarmál árið 2024

Hvað vega velferðarmálin orðið þungt í rekstri bæjarins, hver er kostnaðurinn í þeim málaflokki orðinn?  ,,Árið 2024 er gert ráð fyrir því að Garðabær verji um 3.818 m.kr, sem er 11% hækkun á milli  ára (um 386 m.kr.).  Velferðarmálin eru fjölbreytt og snúa meðal annars að málefnum barna samkvæmt barnaverndarlögum, þjónustu við fatlað fólk, þjónustu við aldrað fólk, félagslegri ráðgjöf, húsnæðismálum og fjárhagsaðstoð, að ógleymdum málefnum flóttamanna og innleiðingu á samþættri þjónustu í þágu farsældar barna. Á þessu sviði eru stór verkefni sem ríki og sveitarfélögin hafa enn ekki komið sér saman um og við verðum að ná að klára til að þau verði fjármögnuð sem skildi.”

Þurfum að horfast í augu við það að við erum í miklum vexti, sem krefst mikils af bæjarsjóði

Og stendur rekstur Garðabæjar þrátt fyrir allt vel? ,,Staðan er í raun óbreytt hvað það varðar, við stöndum vel og betur en flest önnur sveitarfélög. Rekstur bæjarins er góður, en við þurfum að horfast í augu við það að við erum í miklum vexti, sem krefst mikils af bæjarsjóði. Við vitum líka að þetta eru tímabundnar aðstæður en við þeim þarf samt að bregðast. Það er mikilvægt að þó Garðabær standi vel þá er það skylda okkar að laga reksturinn að breyttum forsendum og þeim efnahagsaðstæðum sem blasa við. Það  höfum  við  áður  gert  með  góðum árangri, og staðið þannig vörð um hátt þjónustustig og lífsgæði fyrir íbúa í bænum,” segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar