Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og Samtök iðnaðarins (SI) stóðu saman að talningu íbúða í byggingu á landinu öllu sem hófst um miðjan ágúst sl. og lauk í byrjun september síðastliðinn. Í talningunni er lagt mat á framvindu 1 hverrar íbúðar í þeim tilgangi að fá betri yfirsýn yfir hvenær áætlað er að komi á markað. Samkvæmt talningunni er útlit fyrir að Garðabær og Hafnarfjörður muni stækka mest á höfuð- borgarsvæðinu miðað við þann fjölda íbúða sem núna eru í byggingu, en hlutfallið er 13,3% í Hafnarfirði og 12% í Garðabæ.
Sveitarfélagið Vogar leiðir þó framkvæmdirnar ef horft er til alls landsins en nú er í byggingu 22% af þeim fjölda íbúða sem fyrir er í sveitarfélaginu, en það er hæsta hlutfallið á landinu. Næst hæsta hlutfall íbúða í byggingu sem hlutfall af núverandi fjölda íbúða er í Hörgársveit í Eyjafirði, en þar er hlutfallið 20%. Á Suðurlandi má einnig finna sveitarfélög þar sem örar breytingar eru að eiga sér stað, en hlutfallið í Ölfusi er 14,7% og í Árborg 13,4%.
Hægt er að sjá heildaryfirlit um hvar mest hlutfallsleg uppbygging er á landinu samkvæmt talningu HMS og SÍ í töflunni hér að neðan, en talningin leiddi meðal annars í ljós að framkvæmdir eru hafnar við samtals 8,113 íbúðir á landinu öllu og hefur þeim fjölgað um 35,2% milli ára. Flestar eru íbúðirnar á höfuðborgar- svæðinu, eða 70,2%.
Framkvæmdir eru hafnar við 8.113 íbúðir á landinu öllu samanborið við 7.260 í talningunni í mars sl. og 6.001 íbúð í september í fyrra. Aukningin frá því á sama tíma í fyrra nemur 35,2%. Mikil aukning er á fjölda íbúða í byggingu á framvindustigi 1 þar sem íbúðum fjölgaði um rúmlega 39% frá síðustu talningu sem gefur til kynna að mikið af nýjum verkefnum fóru af stað á milli talninga. Þetta kemur fram í nýrri talningu HMS og SI á íbúðum í byggingu.
Langmesta fjölgun íbúða í byggingu hefur átt sér stað í Hafnarfjarðarkaupstað undanfarið þar sem íbúðum í byggingu hefur fjölgað um 559 frá því í mars sl. eða um 69%. Þar á eftir kemur Sveitarfélagið Árborg með fjölgun uppá 187 íbúðir (52% aukning) og í Kópavogsbæ með fjölgun uppá 105 íbúðir (12,7% aukning).
Á höfuðborgarsvæðinu er útlit fyrir að Hafnarfjarðarkaupstaður og Garðabær séu að fara að stækka mest en þar eru flestar íbúðir í byggingu sem hlutfall af núverandi íbúðafjölda eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Alls eru 742 íbúðir í byggingu á 1-7. stigi í Garðabæ.