Garðabær hefur mikla getu til fjárfestinga – fjárhagsstaða Garðabæjar sterk

Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2022, sem lagður var fram á fundi bæjarráðs 28. mars 2023 lýsir sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Rekstrarniðurstaða Garðabæjar var jákvæð um 1.272 millj. kr. fyrir A og B hluta, en útkomuspá skv. fjárhagsáætlun 2023 gerði ráð fyrir 1.338 m.kr. jákvæðum rekstrarafgangi á árinu 2022. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 23.903 millj. kr. samkvæmt efnahagsreikningi, rekstrargjöld fóru um 3 % fram úr fjárhagsáætlun, en verðbólga á árinu var um 9%.

Rekstur málaflokka er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun að viðbættum viðaukum sem bæjarstjórn samþykkti á árinu. Rekstrargjöld námu samtals 20.609 milljörðum en áætlun gerði ráð fyrir 19.924 milljörðum króna.

Kennitölur í rekstri bera vott um trausta fjárhagsstöðu Garðabæjar

Lántaka á árinu nam 1.170 m.kr. Skuldaviðmið nemur 93 % af tekjum, en það má hæst vera 150% skv. lögum um sveitarfélög. Skuldahlutfall er 120% en það var 117% árið 2021. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 5,1% og fjárfestingar ársins námu 17% af rekstrartekjum. Útsvar sem hlutfall af heildarrekstrartekjum nam 56%. Aðrar tekjur námu 30% af heildarrekstrartekjum en til viðmiðunar voru þær 24% árið 2021.

Framkvæmt fyrir 4.549 milljarða króna

Framkvæmt var fyrir 4.549 m.kr. á árinu, en þar af  námu framkvæmdir í A hluta 3.211.m.kr. Helstu framkvæmdir ársins voru á sviði skólabygginga og lóða, en til þeirra var varið 1.972 m.kr., til gatnagerðar, hljóðvistar og stígagerðar var varið 574 m.kr. og til vatns- og fráveituframkvæmda 1.092 m.kr., auk fjölmargra annarra smærri verkefna.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru íbúar í Garðabæ 18.882 þann 1. desember sl. og hafði fjölgað um 2,4% á árinu 2022.

Mikil uppbygging fram undan

Mikil uppbygging hefur átt sér stað á liðnum árum í Garðabæ og enn frekari uppbygging er fyrirséð á næstu árum. Traust og sterk fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær veiti góða þjónustu og sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við fjölgun nýrra íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa, meðal annars á Álftanesi, í Hnoðraholti og Vetrarmýri. 

Útsvar verður óbreytt í 13,92% og er lægst í Garðabæ meðal stærri sveitarfélaga á landinu

Útsvar verður óbreytt í 13,92% og er lægst í Garðabæ meðal stærri sveitarfélaga. Ljóst er að bæjarfélagið hefur mikla getu til fjárfestinga. Fyrirhugaðar og hafnar eru viðamiklar framkvæmdir vegna endurbóta á skólahúsnæði bæjarins og nýr leikskóli við Holtsveg tekur til starfa upp úr áramótum. Einnig standa yfir framkvæmdir við annan áfanga Urriðaholtsskóla og búsetukjarni í Brekkuási hefur rekstur í lok árs.

Í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins sem lögð var fyrir bæjarráð í lok árs 2022 er lögð áhersla á ábyrgan rekstur, lágar álögur, vöxt í velferð og  farsæld og forvarnir fyrir barnafjölskyldur. Af einstökum áhersluverkefnum má t.d. nefna endurbætur á skólahúsnæði, uppbyggingu stígakerfis, framlög til félagslegs húsnæðis, fjölbreyttari  sumarnámskeið fyrir börn og  umhverfisvænni útfærslu á sorpflokkun.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar